,,Verðum að fá meira fyrir fiskinn“ Verkfallsboðun samþykkt.

Sjómannafélögin í landinu hafa samþykkt verkfallsboðun með yfirgnæfandi meiri hluta í atkvæðagreiðslu sem lauk þann 17 október. Um 905 þeirra vilja hefja verkfall þann 10. nóvember og verður þá að vera búið að draga öll veiðarfæri úr sjó fyrir klukkan 23.

„Við fáum afgerandi niðurstöðu út úr þessari atkvæðagreiðslu. 92% þeirra sem kusu í okkar félagi vilja verkfall eða fara í aðgerðir til að ná einhverjum kjarabótum fram. Skilaboðin verða ekki mikið skýrari en það,“ segir Einar Hannes Harðarson í samtali við kvotinn.is
Á morgun verður fundur hjá samninganefnd Sjómannasambandsins  og í framhaldi af því verður verkfallsboðun send ríkissáttasemjara. Verkfall mun þá hefjast 10. nóvember. Öll veiðarfæri verða þá að vera komin um borð fyrir klukkan 23 þann dag.

„Við teljum að boðun verkfalls sé nauðsynleg fyrir okkur til að ná bættum kjörum. Útgerðarmenn vildu ekki koma nægilega mikið til móts við okkur eftir að síðustu samningar voru felldir. Þeir töldu að samningsstaða þeirra væri sterk. Við töldum að við gætum ekki lagt nýjan samning á borðið fyrir okkar félagsmenn nema með umtalsverðum kjarabótum. Útgerðarmenn voru ekki tilbúnir til þess og því var þessi leið farin.

Stærsta málið okkar er myndun fiskverðs. Laun sjómanna á línubátum hafa til dæmis lækkað mjög mikið síðastliðið ár eins og laun allra sjómanna. Þau hafa lækkað með styrkingu krónunnar um 30 til 40%. Á meðan atvinnulífið í landi er á uppleið, eru laun sjómanna á niðurleið. Það sést greinilega á því að nú er erfiðara að manna skip. Menn þurfa að auglýsa eftir vönum sjómenn og það er erfitt að fá þá því þeir eru líka vinsælir í vinnu í landi. Þegar lítið minna fæst fyrir vinnu í landi velja fjölskyldumenn frekar að vera í landi en úti á sjó streðandi allan sólarhringinn fyrir svipað heildarkaup en miklu minna tímakaup.“

Svo dæmi sé tekið um launalækkunina á frystitogurum bendir Einar Hannes á að sé síðasti túr á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK borinn saman við sambærilegan túr í fyrra, 300 tonn af karfa, 100 tonn af ufsa, töluvert af grálúðu og 120 tonn af þorski, hefði aflaverðmætið verið í kringum 250 milljónir þá, en nú var það 165 milljónir. „Það er um 80 milljónum minna og 30 til 40% launalækkun. Karfaverð hefur gjörsamlega hrunið við lokun Rússlandsmarkaðar, fallið um meira en helming. Uppistaðan í aflanum síðast, um 300 tonn, var karfi og það er bara rosalega lélegt verð á karfa.

Dagpeningar voru til umræðu í síðustu samningum og þá komu þau skilaboð frá fjármálaráðherra an hann væri tilbúinn til að samþykkja að sjómenn fengju 500 krónur í dagpeninga skattfrjálsa. Því var hafnað í síðasta samningi með afgerandi hætti þannig að sjómenn vilja greinilega meiri bætur fyrir sjómannaafsláttinn sem af þeim var tekinn.

Ég vona þegar svona skýr niðurstaða kemur út úr þessari atkvæðagreiðslu að útgerðarmenn stokki sín spil upp á nýtt og setjist að samninga borðinu með eitthvað sem við getum náð saman um. Ég tel að ekki þurfi að bera svo mikið á milli, en reyndar eru kröfurnar um fækkun manna á uppsjávarskipum hreint bull og endar það bara með stórslysi. Þar er ekki verið að hugsa um öryggi okkar sjómanna. Það eru ekki nema 8 manns um borð í þessum stóru og flottu skipum og það gengur ekki upp, er ekki boðlegt.“

Einar Hannes segir að þó tekjur útgerðarinnar hafi líka lækkað með lækkun fiskverðs eigi hún engu að síður að geta bætt kjör sjómanna. „Útgerðin hlýtur að geta greitt meiri laun og haft engu að síður hagnað að starfseminni. Við viljum auðvitað að rekstraraðstæður útgerðarinnar sé góðar, en við viljum fá meira af kökunni.

Leiðin hlýtur að vera að hækka fiskverð. Það er ekki boðlegt eins og þetta er orðið á línubátunum. Menn liggja stöðugt í þorski, eru að koma með fullan bát af þorski að landi í hverri veiðiferð og eru ekki að fá í heildarlaun nema langt innan við milljón á mánuði fyrir að fara alla túra og vera langtímum saman burtu frá fjölskyldunni. Þetta gengur ekki.

Þorskverð í beinum viðskiptum hefur lækkað um allt að 35%  frá því í fyrra. Verðmyndunarkerfið virkar ekki lengur. Þegar ákveðið var að fara í það var miklu meira af fiski inni á mörkuðunum en nú er og fyrir vikið er verið að ofreikna hlut markaðanna í myndun lágmarksverðs í beinum viðskiptum.  Kerfið er orðið úrelt. Það er einfaldlega komið að því að borga verði sjómönnum markaðsverð fyrir fiskinn, þótt útgerðirnar geti tekið sinn fisk beint upp í hús. Það verður að hækka fiskverðið og þá vinna allir á sama fiskverði og þeir sem eiga bæði fiskvinnslu og útgerð geta haldið áfram að taka sinn fisk í eigin vinnslu of halda þannig tengslum veiða og vinnslu,“ segir Einar Hannes Harðarson formaður Sjómanna og Vélstjórafélags Grindavíkur. Viðtalið er að finna á kvotinn.is

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00