Réttur og skyldur

Í slysa- og veikindatilvikum eiga menn rétt, en bera líka skyldur

Réttur skipverja
Sjómaður, sem verður óvinnufær samkvæmt læknisvottorði vegna slyss eða veikinda, á fyrstu tvo mánuðina rétt á fullum launum allan tímann, og skiptir engu máli þó svo sjómaðurinn hafi starfað samkvæmt skiptimannakerfi eða verið tímabundið ráðinn. Sama rétt á skipverji, sem er óvinnufær vegna veikinda, þó ekki fleiri daga, en hann hefur verið í þjónustu útgerðarinnar í allt að tvo mánuði.
Næstu þrjá mánuði óvinnufærninnar vegna vinnuslyss (ekki í veikindum eða frítímaslysum) á sjómaðurinn rétt á greiðslu kauptryggingar (fast kaup hjá farmönnum). Hafi sjómaður starfað hjá sömu útgerð eða á sama skipi samfellt í eitt ár, þá bætist við einn mánuður á kauptryggingu en tveir hafi sjómaðurinn starfað samfellt í tvö ár. Hámarkslaunaréttur sjómanns, sem slasast í vinnuslysi, getur samkvæmt þessu numið fullu kaupi í tvo mánuði og kauptryggingu í fimm mánuði eða samtals forfallakaup í sjö mánuði varði óvinnufærnin svo langan tíma.
Ljúki forföllum sjómanns á meðan skip er í veiðiferð og ekki er hægt að koma honum um borð, ber að greiða honum forfallakaup alla veiðiferðina. Á hinn bóginn er heimilt að láta sjómanninn vinna við störf í landi, enda falli störfin undir verkahring sjómannsins.
Sjómaður, sem slasast í frítíma sínum, á rétt á slysakaupi, fullu kaupi í allt að 2 mánuði. Tekur sjómaðurinn laun frá þeim tíma, er hann átti að hefja störf að nýju, en frá þeim tíma telst óvinnufærni hefjast launalega séð.

Skyldur skipverja

Verði sjómaður óvinnufær af völdum slysa- eða veikinda ber að honum strax að tilkynna skipstjóra eða útgerðarmanni um forföllin. Áríðandi er að vinnuslys séu skráð í skipsdagbók, jafnvel þótt ekki líti út í fyrstu að um alvarlegt slys sé að ræða, því raunverulegar afleiðingar slysa eru oft lengi að koma í ljós.
Leita skal læknis eins fljótt og hægt er og skila útgerðinni læknisvottorði um óvinnufærnina strax. Þá er nauðsynlegt að útgerðin fái að fylgjast með framvindu mála, enda þarf hún að gera sínar ráðstafanir svo sem varðandi afleysingamann o.s.frv. Strax og óvinnufærni lýkur þarf að afhenda útgerðinni lokavottorð læknis.

Upplýsinga aflað
Áríðandi er að sjómenn leiti strax til stéttarfélags síns og afli upplýsinga um réttarstöðu sína. Að mörgu er að huga, þegar óvinnufærni ber að höndum og er því þýðingarmikið að fá strax í upphafi slysa og veikinda réttu leiðbeiningarnar hjá stéttarfélaginu eða lögmönnum þess, sem eru Lögmenn Borgartúni 18 sf.. Sérstaklega er þetta áríðandi, ef um vinnuslys er að ræða, enda átta menn sig ekki alltaf á því, þegar slysið gerist, hvaða varanlegar afleiðingar slysið kann að hafa í för með sér þegar frá líður og hver bótaréttur þeirra er. Er nokkuð um það, að sjómenn reyni að harka af sér afleiðingar slyss og láti þar við sitja.

Skaðabætur
Samkvæmt slysatryggingu sjómanna eiga sjómenn fullan og óskoraðan rétt á greiðslu skaðabóta, valdi vinnuslys þeim varanlegum skaða í einhverju mæli, þótt slysið verði ekki rakið til ófullnægjandi vinnuaðstæðna eða um hreint óhappatilvik að ræða. Sjómenn, sem slasast á beinni leið til og frá vinnu, eiga sama rétt til slysakaups og skaðabóta og slysið hefði gerst í vinnunni.
Séu afleiðingar vinnuslyss varanlegar, þannig að sjómaður nær ekki fullum bata eftir slysið, á hann rétt á greiðslu skaðabóta úr slysatryggingu sjómanna. Um háar bætur getur verið að ræða,  þótt varanlegar afleiðingar slyssins reynist  ekki miklar. Því miður er algengt, að sjómenn, sem verða fyrir slysum, átti sig ekki á réttarstöðu sinni
Skaðabætur reiknast á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 og er því mikilvægt að ráðfæra sig strax við stéttarfélagið eða lögmenn þess, því að mörgu er að hyggja varðandi gagnasöfnun og útreikninga, áður en hægt er að leggja fram bótakröfur á hendur viðkomandi tryggingafélagi.

Séu félagsmenn sjómannafélagsins í minnsta vafa um rétt sinn varðandi vinnuslys, eru þeir eindregið hvattir til að hafa strax samband við stéttarfélag sitt eða lögmenn þess.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00