Þann 5 mars s.l. voru kveðnir upp þrír dómar í Hæstarétti er er varða uppgjör á smábátum. Málin eru nr. 515/2014 og nr. 516/2014 sem útgerðin Lukka ehf vísaði til Hæstaréttar og mál nr. 413/2014 sem útgerðin Ölduós ehf vísaði til Hæstaréttar. Málflutningur fór fram fyrir Hæstarétti þann 3. mars síðastliðinn og voru dómar kveðnir upp þann 5. mars eins og áður var getið. Sjómennirnir á bátunum sem um ræðir unnu málin í héraði og staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu. Dómana er hægt að skoða á heimasíðu Hæstaréttar, en dómur Hæstaréttar er stuttur. Sem dæmi er dómur Hæstaréttar í einu málanna tíundaður hér að neðan, en hinir tveir dómarnir eru nánast eins.
„Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í samningarétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ölduós ehf., greiði stefnda, Einari Stefáni Aðalbjörnssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.“