1. Inngangur
Vaxandi erfiðleikar í íslensku efnahagslífi og ágeng umræða um rekstrarerfiðleika og gjaldþrot fyrirtækja hefur leitt til þess að fjöldi launafólks óttast nú um stöðu sína. Þá liggur fyrir að mörg fyrirtæki hafa að undanförnu verið að segja upp starfsfólki auk þess sem nokkuð hefur verið um stórar hópuppsagnir. Þessu upplýsingariti er ætlað að veita upplýsingar á einum stað um algengar spurningar og svör við þeim. Ekki er um að ræða tæmandi umfjöllun og því mikilvægt að hafa það í huga og leita sér ýtarlegri upplýsinga eftir því sem við á. Frekari upplýsinga er einnig að leita á vinnuréttarvef ASÍ og á upplýsingavef félagsmálaráðuneytisins. Benda má einnig á gagnlegar upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar.
2. Uppsagnir o.fl.
Mér var sagt upp og hef ekkert í höndunum – má segja mér upp munnlega?
Svar: Nei allar uppsagnir skulu gerðar skriflega og á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns. Þó er ein undantekning á þessu og er hún mjög á undanhaldi, þar sem í dómaframkvæmd hefur munnleg uppsögn talist vera lögmæt takist atvinnurekanda að sanna að hún hafi komist til vitundar starfsmanns.
Mér var sagt upp án rökstuðnings – má það?
Svar: Með síðustu kjarasamningum var reglum um framkvæmd uppsagna breytt og á starfsmaður nú rétt á viðtali við atvinnurekanda um ástæður uppsagna óski hann þess.
Hvað eru uppsagnarfrestir langir?
Svar: Samkvæmt lögum er uppsagnarfrestur eftirfarandi:
- Eftir eins árs starfs hjá aðilum innan sömu starfsgreinar er uppsagnarfrestur 1 mánuður.
- Eftir þriggja ára starf hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 2 mánuðir.
- Eftir fimm ára starf hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 3 mánuðir.
Kjarasamningar bæta talsvert við þennan lágmarksrétt og fólk er hvatt til að kynna sér kjarasamning þess félags sem það er í. Hér er tengill á aðildarsamtök ASÍ.
Njóta einhverjir verndar fyrir uppsögnum?
Svar: Já – trúnaðarmenn, öryggistrúnaðarmenn, barnshafandi konur, foreldrar í fæðingar- og foreldraorlofi eða sem tilkynnt hafa um töku fæðingar- og foreldraorlofs og starfsmenn sem bera fjölskylduábyrgð. Njóti starfmaður uppsagnarverndar samkv. lögum þá skal atvinnurekandi rökstyðja uppsögnina skriflega sem skýri að uppsögnin tengist ekki þeim aðstæðum sem verndin nær til.
Mér var sagt upp, var gert að hætta strax og fæ engar greiðslur í uppsagnafresti – er það eðlilegt?
Svar: Nei það er ekki eðlilegt nema starfsmaður hafi alvarlega borið starfsskyldur sínar. Beri uppsögnin að með eðlilegum hætti þá á starfsmaður að halda áfram störfum þar til uppsagnarfresti er lokið. Ef starfsmanni er gert að hætta strax, þá ber atvinnurekanda að greiða full laun út uppsagnarfrestinn. Einnig skal starfsmaður fá við starfslok hlutfall óuppgerðs orlofs og desemberuppbótar.
Hvað get ég gert sé brotið á mér þ.e. að uppsögn beri ekki að með eðlilegum hætti?
Svar: Best er að hafa tafarlaust samband við stéttarfélagið. Starfsmenn þeirra munu aðstoða þig auk þess sem á vegum þeirra starfa að jafnaði lögfræðingar. Atvinnurekandi getur orðið bótaskyldur. Í því felst að launamaður á að vera eins settur eftir ólögmæta uppsögn eins og hann hefði verið er uppsögn hefði borið að með eðlilegum hætti.
Mér var sagt upp með eðlilegum hætti og sagt að koma ekki meir í vinnuna – má það?
Svar: Það má gegn því að atvinnurekandi leggi fram formlega staðfest loforð að laun í uppsagnafresti verði greidd.
Greiðslum vegna umsaminnar yfirvinnu og sérstakra ráðningarkjara var rift – á ég einhvern rétt?
Svar: Fastri yfirvinnu og sérstökum ráðningarkjörum ber að segja upp með sama hætti og sömu frestum og ráðningarsamningi í heild sinni. Sjá nánar á vinnuréttarvef ASÍ.
Ég fæ ekki launin mín greidd – hvað get ég gert?
Svar: Meginskylda atvinnurekanda er að greiða laun á gjalddaga. Séu þau ekki greidd hefur atvinnurekandi að öllum líkindum brotið ráðningarsamning á starfsmanni. Skiptir hér ekki máli hvort greiðslufallið stafar af almennum ómöguleika til að greiða eða öðrum ástæðum. Sjá nánar á vinnuréttarvef ASÍ.
Ég vinn í framleiðslu, hráefni er ekki til og engin vinna – hver er réttur minn?
Svar: Skyldur starfsmanna felast í því að sinna þeim störfum sem þeir er ráðnir til, undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekanda. Lamist starfsemi atvinnurekanda vegna þess að honum berast ekki þau aðföng sem nauðsynleg eru til þess að vinna geti farið fram, hefur það að jafnaði engin áhrif á réttarstöðu starfsmanna þ.e. þeim ber að mæta til vinnu og tapa ekki launum. Frá þessu eru tvær undantekningar. Hin fyrri varðar hráefnisskort í fiskvinnslu. Þar er staðan sú að atvinnurekandi sem greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Með tímabundinni vinnslustöðvun er í lögum þessum átt við að hráefnisskort eða aðrar viðlíka ástæður (svo sem bruna, bilunar í vélum eða vegna þess að ekki er talið réttlætanlegt að vinna afla vegna ónógs magns). Með þessum hætti er tryggt að fiskvinnslufólk heldur föstum launum sínum. Hin síðari varðar óviðráðanleg ytri atvik (force majeure) atvik en telja verður tímabundinn hráefnisskort vegna stórfelldra efnahagslegra atvika ekki falla undir það hugtak. Þetta er þó umdeilt meðal fræðimanna.
3. Hópuppsagnir
Hvað er hópuppsögn?
Svar: Hópuppsögn er eins og nafnið gefur til kynna uppsögn hóps starfsmanna í sama fyrirtæki. Til eru lög um hópuppsagnir og gilda þau um uppsagnir af ástæðum sem tengjast ekki hverjum einstökum starfsmanni heldur ytri aðstæðum eins og t.d. samdrætti hjá fyrirtæki.
Eru einhver skilyrði fyrir fjölda starfsmanna í uppsögn svo hún verði hópuppsögn?
Svar: Já skilyrði er að fjöldi starfsmanna sem atvinnurekandi segir upp á 30 daga tímabili sé:
- Að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
- Að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
- Að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
Er einhver fyrirvari á hópuppsögnum ?
Svar: Já – það á að vera fyrirvari á tilkynningum um hópuppsagnir því atvinnurekanda er skylt að veita trúnaðarmanni starfsmanna upplýsingar þær meðan þær eru einungis fyrirhugaðar. Síðan gilda hefðbundnir uppsagnarfrestir að öðru leyti en því að þeir geta aldrei orðið styttri en 30 dagar.
Hvaða ástæður geta verið að baki hópuppsögnum?
Svar: Þær geta verið af ýmsu tagi. Algengustu ástæður sem atvinnurekendur gefa upp eru t.d. áföll í rekstri, neikvæð rekstrarskilyrði, kröfur hluthafa um meiri arð o.fl.
Hvaða viðmið eiga atvinnurekendur að nota í hópuppsögnum?
Svar: Atvinnurekandi verður að upplýsa starfsfólk um það. Algengast er að gripið sé til viðmiða er snerta starfsaldur starfsmanna innan fyrirtækis. Einnig er lagt mat á árangur í starfi. Gæta skal jafnræðis við þetta val sbr. t.d. jafnréttislög og lög sem banna mismunun vegna þjóðernis.
4. Aðilaskipti – fyrirtæki eða rekstur skiptir um eigendur
Fyrirtækið sem ég vinn hjá var selt – hver er réttarstaða mín?
Svar: Um réttarstöðu starfsmanna um aðilaskipti á fyrirtækjum eru sérstök lög sem hafa það að markmiði að venda réttarstöðu starfsmanna. Ná lögin til þeirra starfsmanna sem eru í starfi í viðkomandi fyrirtæki, auk þeirra sem eru í ráðningarsambandi við fyrirtækið en eru frá vinnu vegna töku fæðingar-eða feðraorlofs, í launalausu leyfi, í orlofi, í veikindaleyfi. ATH Skv. neyðarlögum vegna fjármálakreppunnar gilda þess lög ekki um yfirtöku ríkisins á bönkunum.
Hvað þýðir hugtakið aðilaskipti?
Svar: Það þýðir framsal/sala fyrirtækis eða hluta fyrirtækis til annars rekstraraðila sem tekur við skyldum fyrri eiganda.
Fá starfsmenn einhverjar upplýsingar um aðilaskipti með einhverjum fyrirvara?
Svar: Já, atvinnurekanda er skylt að gefa trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um t.d. dagsetningu aðilaskiptanna, ástæður fyrir aðilaskiptum, lagaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif aðilaskiptanna fyrir starfsmenn og hvort einhverjar ráðstafanir séu fyrirhugaðar vegna starfsmanna.
Hvað með launakjör og önnur réttindi mín við aðilaskipti?
Svar: Samkvæmt lögum verður nýr rekstraraðili að virða launakör og starfsskilyrði starfsmanna eins og áður giltu hjá fyrri atvinnuveitanda. M.ö.o. starfsmaður skal vera eins settur eftir skipti eins og hann var áður þ.m.t. hvað varðar að viðra betri launakjör starfsmanna samkv. ráðningarsamningi, orlofsréttindi, veikinda og slysarétt og auk þess uppsagnafresti.
5. Gjaldþrot atvinnurekanda
Fyrirtækið sem ég vinn hjá er gjaldþrota – fæ ég ekki launin mín greidd?
Svar: Vangoldin laun njóta forgangs í þrotabúi fyrirtækja. Séu engar eignir til í fyrirtækinu til að greiða launin/forgangskröfuna, tekur Ábyrgðarsjóður launa yfir kröfuna og greiðir starfsfólki laun.
Hver er önnur staða mín við gjaldþrot?
Svar: Starfsmenn eru lausir undan ráðningarsamningi sínum við fyrirtækið um leið og það hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Almennt er túlkunin sú að starfsmenn eru hvorki bundnir vinnuskyldu né uppsagnarfresti og öðru því sem reynir á í starfssambandi.
Ábyrgist Ábyrgðarsjóður launa allar vangreiddar launakröfur við gjaldþrot?
Svar: Ábyrgðarsjóður gengur tryggir vangoldin laun þriggja síðustu mánaða, laun í uppsagnarfresti í allt að þrjá mánuði, áunnið orlof og bætur vegna vinnuslysa. Auk þess ábyrgist sjóðurinn lífeyrissjóðsgjöld og nær það til lágmarksiðgjaldsins (12%) og allt að 4% viðbótarlífeyrisgreiðslu.
Er eitthvert skilyrði fyrir greiðslu vangoldinna launa að sá sem gerir kröfu á Ábyrgðarsjóð launa sýni fram á að hann hafi verið á vinnumarkaði og leitað reglulega að nýrri vinnu á uppsagnarfresti?
Svar: Já, það er skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að viðkomandi sé á vinnumarkaði og í atvinnuleit í þá mánuði sem hann krefur sjóðinn um greiðslu.
Er eitthvert hámark á ábyrgð sjóðsins á kröfum vegna vangoldinna launa?
Svar: Já, ráðherra ákveður með reglugerð 1. janúar ár hvert hámarksábyrgð sjóðsins. Hámarksábyrgð á launakröfur fyrir árið 2008 eru 345.000 á mánuði.
Koma greiðslurnar sjálfkrafa til mín við gjaldþrot frá Ábyrgðarsjóði launa?
Svar: Nei, starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja verða bera sig sjálfir eftir þeim greiðslum sem þeir eiga rétt á úr sjóðnum. Starfsmenn stéttarfélaganna og lögfræðingar þeirra veita nauðsynlega aðstoð í þessu sambandi.
Ábyrgist Ábyrgðarsjóður launa kröfur vegna vangoldinna félagsgjalda stéttarfélaga?
Svar: Nei, en sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur getur óskað eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns og sér þá Vinnumálastofnun um að koma greiðslunni til viðkomandi stéttarfélags.
Koma laun frá nýjum atvinnurekanda til frádráttar kröfu minni á hendur Ábyrgðarsjóði launa?
Svar: já.
Hvað með atvinnuleysisbætur – koma þær líka til frádráttar?
Svar: já.
6. Atvinnuleysi
Hverjir eiga rétt til atvinnuleysisbóta?
Svar: Atvinnuleysisbætur eiga að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundnar fjárhagsaðstoð meðan leit að nýju starfi stendur yfir eftir vinnumissi. Atvinnuleysisbætur skiptast í tvo flokka: tekjutengdar atvinnuleysisbætur og grunnatvinnuleysisbætur.
Hvernig sæki ég um atvinnuleysisbætur?
Svar: Hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í því umdæmi þar sem launamaður er búsettur. Skal fylgja með umsókn vottorð vinnuveitanda um starfstíma, starfshlutfall og ástæðu starfsloka, skattkort og fl. gögn sem við eiga s.s. læknisvottorð vegna skertrar vinnufærni, námsvottorð og fl.
Mér var sagt upp – get ég fengið atvinnuleysisbætur strax?
Svar: Réttur launamanns til atvinnuleysisbóta verður virkur að liðnum uppsagnarfresti. Þó má atvinnurekandi ekki fella niður greiðslur til launþega til að koma honum strax á atvinnuleysisbætur. Við gjaldþrot getur launamaður þó sótt strax um atvinnuleysisbætur og koma þær til frádráttar þegar Ábyrgðasjóður launa gerir upp við launþega.
Ég sagði upp – get ég fengið atvinnuleysisbætur strax?
Svar: Nei – þegar starfsmaður segir sjálfur upp á hann ekki rétt á bótum fyrr en að 40 virkum dögum liðnum eða sem jafngildir 2 mánuðum. Undir vissum kringumstæðum getur sá biðtími lengst í 3 mánuði.
Hvað eru grunnatvinnuleysisbætur?
Svar: Þær eru greiddar launamanni fyrstu 10 virku dagana. Síðan taka þær við á nýjan leik eftir að aðili hefur fengið tekjutengdar atvinnuleysisbætur í 3 mánuði sé hann ekki enn kominn með starf. Grunn atvinnuleysisbætur eru 136.023 kr. á mánuði miðað við árið 2008.
Hvað eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur?
Svar: Þær taka við af grunnatvinnuleysisbótum þ.e. að liðnum 10 virkum dögum frá upphafi bótaréttar. Þær eru greiddar í allt að 3 mánuði. Upphæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðast við 70 % af meðallaunum umsækjanda á 6 mánaða tímabili sem líkur tveimur mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur.
Hvað eru hæstu mögulegu atvinnuleysisbæturnar í krónum talið?
Svar: 220.729 kr. á mánuði miðað við árið 2008.
Ég er með 380.000 á mánuði – held ég því eftir uppsögn í gegnum atvinnuleysisbætur?
Svar: Nei – Tökum dæmi um starfslok miðað við 30. sept. 2008. Viðmiðunartímabil til útreiknings tekjutengdra atvinnuleysisbóta er þá 1. febrúar til 31. júlí 2008. Heildar mánaðarlaun að meðaltali á viðmiðunartímabilinu eru 380.000 kr. 70% af því eru 266.000 kr. Síðan er leiðrétt vegna lögbundins hámarks og greiddar út 220.729 kr.
Hverjar eru lágmarksbætur?
Svar: 136.023 kr. á mánuði miðað við árið 2008.
Ég er með 200.000 á mánuði og vinn bara 75% vinnu. Hvað eru bæturnar mínar háar?
Svar: Gefum okkur að starfslok hafi verið 30. september 2008. Viðmiðunartímabil til útreiknings tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 1. febrúar til 31. júlí 2008. Heildar mánaðarlaun að meðaltali á viðmiðunartímabilinu eru 200.000 kr. og tryggingarhlutfall er 75%.
200.000 x 70% = 140.000 kr.
140.000 x 75% tryggingahlutfall = 105.000 kr.
Leiðrétting vegna hins lögbundna lágmarks grunnatvinnuleysisbóta = 136.023 kr.
Í þessu dæmi eru lágmarks atvinnuleysisbætur hærri en laun fyrir 75% vinnu launþega og fær hann því lágmarksbætur greiddar.
Ég hef ekki stundað fulla vinnu – hvað á ég rétt á miklum greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði?
Svar: Hér má sjá hlutfallsútreikninga og bótarétt í samræmi við vinnuframlag. Upplýsingar eru teknar af vef Vinnumálastofnunar.
Er boðið upp á einhverja aðstoð frá hinu opinbera varðandi atvinnuleit og endurmenntun?
Svar: Já Vinnumálastofnun og þjónustuskrifstofur hennar um landið veita þessa aðstoð. Allir á aldrinum 16-70 ára og eru í atvinnuleit eiga rétt á þjónustu þessari sér að kostnaðarlausu.
Góðar upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar
7. Inneignir í bönkum
Hvaða inneignir í bönkunum eru tryggðar?
Svar: Innistæður á hefðbundnum innlánsreikningum, reiðufé og verðbréf í eigu viðskiptamanns sem er í umsjón eða umsýslu bankastofnunar. Hámark bóta til hvers aðila er um 3 milljónir. Ef viðskiptamaður á innistæður í fleiri en einni bankastofnun gildir nýtt hámark þar. Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út að allar innistæður séu tryggðar – ekki bara að lámarki 3 millj. Tryggingasjóður innistæðueiganda ber ábyrgð á greiðslum.
Hvaða „innegnir“ eru ekki tryggðar?
Svar: Í raun allt annað en að ofan greinir. Hvað fæst greitt fer allt eftir samsetningu þeirra sjóða sem viðskiptamaður á hlutdeild í en skilanefndir bankanna vinna nú að uppgjöri þeirra. Sjá nánar um þetta á vef ASÍ.
Hvenær fæ ég greitt ef ábyrgð Tryggingasjóðs verður virk?
Svar: Þegar Fjármálaeftirlitið gefur út að bankastofnun geti ekki greitt út innistæður. Einnig ef og þegar bankastofnun er tekin til gjaldþrotaskipta. Skal greiðsla fara fram innan þriggja mánaða frá þessu tímamarki en þó getur viðskiptaráðherra framlengt þann frest um þrjá mánuði í senn en þó að hámarki upp í 12 mánuði.
Upplýsingatenglar
Hér eru meiri upplýsingar varðandi innistæður í bönkum á heimasíðu Tryggingasjóðs innistæðueiganda og fjárfesta. Einnig má benda á Spurt og svarað á vef Glitnis, Spurt og svarað á vef Kaupþings, Spurt og svarað á vef Landsbankans.
8. Lífeyrissjóðsiðgjöld og staða lífeyrissjóðanna
Hver er munurinn á lögbundum lífeyrissjóðsgreiðslum og viðbótarlífeyrissparnaði?
Svar: Lögbundnar lífeyrissjóðsgreiðslur koma til samtryggingar sjóðsfélaga – allir fyrir einn, einn fyrir alla. Viðbótarlífeyrissparnaður er hins vegar séreignasparnaður í eigu hvers og eins.
Hvernig er staða almennu lífeyrissjóðanna eftir efnahagsþrengingarnar?
Svar: Staða almennu lífeyrissjóðanna er mjög sterk. Talið er að íslenska lífeyrissjóðskerfið sé eitt það öflugasta á heimsvísu. Ávöxtun sjóðanna hefur verið afar góð síðustu ár. Miðað við svartsýnustu spár verður staða þeirra eftir atburði síðustu vikna ekki lakari en hún var um mitt ár 2005.
Hvernig munu almennu lífeyrissjóðirnir bregðast við því tapi sem er fyrirsjáanlegt nú?
Svar: Lífeyrissjóðirnir taka á sig það áfall sem kann að verða vegna efnahagsþrenginganna og dreifa því á sjóðsfélaga. Þannig virkar samtryggingin sem er grundvöllur sameignasjóðanna – allir fyrir einn , einn fyrir alla.
Eru iðagjaldagreiðslur sem berast almennu lífeyrissjóðunum eftir bankaáfallið öruggar?
Svar: Öllum nýjum iðgjöldum er ráðstafað í samræmi við ákvæði laga um lífeyrissjóði þ.e. að þeir skulu ávaxta fé sitt með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Í ljósi ástandsins er mjög varlega farið og ný iðgjöld varðveitt þannig að skerðist ekki vegna efnahagsþrenginganna. Öll innborguð ný iðgjöld munu því stuðla að því að styrkja lífeyrisréttindi allra sjóðsfélaga til lengri tíma litið.
Hvenær kemur í ljós hver staða almennu lífeyrissjóðanna er?
Svar: Tryggingafræðileg staða þeirra verður reiknuð út í byrjun árs 2009.
Skerðast greiðslur mikið til þeirra sem eru komnir á lífeyrisaldur og þiggja greiðslur frá lífeyrissjóðunum?
Svar: Hver lækkunin verður ræðst m.a. af aldurssamsetningu sjóðfélaga í hverjum lífeyrissjóði og hve mikið af ávöxtun undanfarinna ára hefur verið tekin inn í hækkun lífeyrisgreiðslna/réttinda. Verði réttindi lækkuð koma þær lækkanir ekki til fyrr en eftir tryggingafræðilega úttekt á sjóðunum í byrjun árs 2009. Ef til kemur mun lífeyrir ekki lækka jafn mikið og eignir rýrna og raunar allmikið minna.
Hvað geri ég ef greiðslurnar til mín lækka mikið?
Svar: Hafa verður í huga að lækkun lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum getur hækkað bætur almannatrygginga.
Hefur áunninn viðbótalífeyrissparnaður minn brunnið upp?
Svar: Í yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf þann 6. október síðastliðinn kom fram að viðbótalífeyrissparnaður væri varinn. Ýmis lögfræðileg atriði eru ekki ljós í þessu sambandi m.a. vegna þess að viðbótarlífeyrissparnaðurinn er mjög mismunandi. Sumir geta hafa valið áhættusamar ávöxtunarleiðir með háu hlutfalli hlutabréfa meðan aðrir hafa haldið sig við lífeyrissbækur sem eiga að vera öruggar. Rétt er að þeir sem völdu einhverja áhættu í sparnaði sínum búi sig undir skerðingu.
Á ég að taka þá áhættu á að greiða aftur til séreignasjóðs?
Svar: Allar innborganir sem berast séreignasjóðunum eftir að fjármálamarkaðir lokuðu í byrjun október verður ráðstafað með öruggum hætti. Þessi nýju iðgjöld munu því ekki skerðast.
Hvað ber mér samkvæmt lögum að greiða til lífeyrissjóðs?
Svar: Launafólk greiðir 4% og atvinnurekandi 8% mótgreiðslu. Launafólk hefur síðan val hvort hann greiðir einnig viðbótarlífeyrissparnað 2-4% og atvinnugreiðandi greiðir 2% á móti. Viðbótarlífeyrissparnaður er ekki lögbundinn.
9. Greiðsluerfiðleikar fólks sem er að borga af íbúðarhúsnæði
Eru einhver úrræði hjá Íbúðarlánasjóði fyrir fólk sem er komið í þrot með greiðslur?
Svar: Já – Íbúðarlánasjóður hefur nokkur úrræði sem hægt er að grípa til þegar lántakendur hjá sjóðnum eru komnir í greiðsluerfiðleika. Verður hverri leið gerð skil hér á eftir. Hér eru mjög góðar upplýsingar frá Íbúðarlánasjóði.
Eru einhver úrræði til staðar fyrir fólk sem tók íbúðarlán í erlendri mynt?
Svar: Já – í nýsettum neyðarlögum er Íbúðarlánasjóði veitt heimild til að koma að og endurfjármagna lán fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ef þessi lán verða yfirtekin af Íbúðarlánasjóði mun lántakendum þessara lána standa til boða sömu úrræði vegna greiðsluerfiðleika eins og þeim sem tóku lán hjá sjóðnum.
Við hvern á að hafa samband til að fá upplýsingar og hjálp í greiðsluerfiðleikum?
Svar: Ýmist snúa skuldarar sér beint til Íbúðarlánasjóðs, viðskiptabanka og/eða Ráðgjafastofu heimilanna.
Í hvaða tilfellum er haft beint samband við Íbúðarlánasjóð?
Svar: Þegar skuldari gerir samning um greiðsludreifingu skulda í allt að 18 mánuði og þegar óska þarf frestunar á greiðslum vegna sölutregðu eignar við kaup á annarri eign.
Ég er komin í vanskil með lán en innheimtuaðgerðir eru ekki hafnar – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og gera samning um greiðsludreifingu gjaldfallina skulda auk afborgana í allt að 18 mánuði. Innheimtuaðgerðir stöðvast sjálfkrafa við samninginn.
Ég er komin í vanskil með lán og innheimtuaðgerðir eru hafnar – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og gera samning um greiðsludreifingu gjaldfallina skulda auk afborgana í allt að 18 mánuði. Innheimtukostnaður fellur ekki niður.
Skuldir eru orðnar svo miklar að ég er að missa íbúðina (nauðungarsölubeiðni)– hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og greiða 50% þess sem í vanskilum er. Ekki hægt að semja um frest á fyrstu fyrirtöku uppboðs og eingöngu greiðslur koma til greina. Sé þetta gert afturkallar Íbúðarlánasjóður nauðungarsölubeiðnina.
Ég er komin í greiðsluerfiðleika sem stafa af óvæntum tímabundnum erfiðleikum s.s. veikindum, slysi, minni atvinnu, atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við sinn banka eða sparisjóð sem fer yfir umsókn um skuldbreytingu vanskila sem hægt er að breyta í nýtt lán til 5 – 15 ára. Viðskiptabankinn gerir síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs um framkvæmd.
Ég er komin í meiriháttar vanskil og í raun þrot með öll mín fjármál – hvað get ég gert?
Svar 1: Hafa samband við sinn banka, sparisjóð og/eða Ráðgjafastofu heimilanna sem fara yfir umsókn um frestun á greiðslum. Þessir aðilar gera síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs sem er heimilt að veita skuldara frestun (frystingu) á lánagreiðslum í 3 ár.
Svar 2: Hafa samband við sinn banka, sparisjóð og/eða Ráðgjafastofu heimilanna sem fara yfir umsókn um frestun á greiðslum. Þessir aðilar gera síðan tillögu til Íbúðarlánasjóðs sem er heimilt að lengja upphaflegan lánatíma um allt að 15 ár.
Ég hef keypt íbúðarhúsnæði en get ekki selt það húsnæði sem ég átti fyrir – hvað get ég gert?
Svar: Hafa samband við Íbúðarlánasjóð og sækja um frestun á greiðslum vegna sölutregðu. Hægt er að sækja um frestun á greiðslum til annarrar eða beggja eigna. Sama rétt eiga þeir sem eru að byggja og er fresturinn veittur til eins árs í senn.
Hvað með lífeyrissjóðslánin og vanskil af þeim?
Svar: Á vef Landssamtaka lífeyrissjóða segir að unnið sé að sameiginlegri nálgun sjóðanna að reglum sem beita má vegna vanskila á sjóðfélagalánum. Niðurstöður liggja ekki fyrir. Flestir sjóðanna hafa heimasíður sem geyma leiðbeiningar til sjóðfélaga og þær síður er að finna HÉR.