Sjómannadagsblað Grindavíkur 2010 komið út

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2010 er komið út og hefur björgunarsveitarfólk frá Slysavarnadeildinni Þorbjörn boðið það til sölu líkt og undanfarin ár sem fjáröflun fyrir sitt starf. Blaðið er einnig í sölu á nokkrum útvöldum stöðum, verslunum, Sjómannastofunni Vör og Saltfisksetrinu fyrir þá sem að misst hafa af heimasölunni. Þá er blaðið í fyrsta skiptið í sölu í verslunum Pennans-Eymundsson um land allt og hjá Olís á Suðurnesjum.

Í blaðinu er viðtal við Þórð Pálmason skipstjóra á Jóhönnu Gísladóttur ÍS 7, flaggskipi Vísis hf., sem Kristinn Benediktsson, ritstjóri, tók en hann fór með í sjóferð í vetur. Þórður hefur frá mörgu skemmtilegu að segja en hann hefur verið til sjós í um fimmtíu ár þar af 25 ár á Grindavíkurbátum, Höfrungi II. GK, Hrungni GK og Jóhönnu Gísladóttur ÍS.

Á sínum stað í blaðinu eru myndir og frásögn frá síðasta sjómannadegi og heiðrun sjómanna. Þá er myndasýning frá Ólafi Rúnari Þorvaldssyni, aldamótaræða Einars G. Einarssyni í Garðhúsum en handritið kom nýlega fram í dagsljósið. Haraldur Hjálmarsson á Oddgeiri sýnir okkur frábærar myndir úr myndasafni sínu í Ljósmyndagalleríi blaðsins. Þá er farið í grásleppuróður með Hafsteini Sæmundssyni, 74 ára trillukarli, og Heimi syni hans. Viðtal við Sigurð Þorláksson, stýrimann frá Vík, og grein Sveins Torfa frá humarróðri með Gvendi Karls og skoðað inn á bátasíðu Emils Páls ritstjóra epj.is auk fleira efnis en blaðið er 100 síður smekkfullt af frábæru efni.

Blaðið kom fyrst út 1989 og í vetur voru öll eldri tölublöð gerð aðgengileg á heimasíðu Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur sem gefur blöðin út. Ritstjóri blaðsins er Kristinn Benediktsson en hönnun og prentvinnan var í höndum Stapaprents í Reykjanesbæ.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00