Samtök atvinnulífsins og aðild að Evrópusambandinu

Eftirfarandi bréf var sent út til félagsmanna LÍÚ og SF fyrir stundu:

Til félagsmanna LÍÚ og SF.

Frá því að Samtök atvinnulífsins voru stofnuð hefur það legið fyrir að samtökin beiti sér ekki í málefnum sem ganga gegn grundvallarhagsmunun einstakra aðildarsamtaka.

Þess vegna hafa Samtök afvinnulífsins ekki tekið afstöðu með eða á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Mikil breyting hefur orðið á málflutningi fyrirsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins á síðustu mánuðum án þess að formlegri afstöðu samtakanna hafi verið breytt.

Stjórnarmenn í Samtökum atvinnulífsins frá aðildarsamtökum í sjávarútvegi hafa eindregið farið þess á leit að Samtökum atvinnulífsins verði ekki beitt í málinu, heldur verði það verkefni einstakra aðildarsamtaka að halda skoðun sinni á lofti.  Málið var til umfjöllunar á síðasta stjórnarfundi Samtaka atvinnulífsins og þar var stefnu samtakanna ekki breytt.

Stjórn LÍÚ hefur fjallað um málið og samþykkt einróma að verði Samtökum atvinnulífsins beitt fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið þá muni stjórnin leggja það til við félagsmenn að LÍÚ segi sig úr Samtökum atvinnulífsins.

Nú hefur framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, þrátt fyrir að við höfum óskað eftir að málið verði áfram á vettvangi stjórnar samtakanna, ákveðið að fram fari skoðanakönnun meðal aðildarfyrirtækja um það hvort fyrirtækin vilja að Samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Við fórum þess á leit þegar ljóst var að ekki var stuðningur fyrir því í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífisins að halda óbreyttri stefnu að aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins verði spurð um það hvort þau vilji að Samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru þrátt fyrir að því fylgi afsal á yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland og að forræði á samningum um sameiginlega fiskistofna færist til ESB. Þessari ósk okkar var hafnað.  Þá fórum við þess einnig á leit að spurt verði hvort aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins séu hlynnt eða andvíg því að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi í stað krónu án inngöngu í ESB. Þessari ósk okkar var einnig hafnað.

Fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðva,

Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ

Eiríkur Tómasson varaformaður LÍÚ

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ

Arnar Sigurmundsson formaður SF

Gunnar Tómasson varaformaður SF

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00