Samningur milli SFS/SA og Sjómanna og Vélstjórafélags Grindavíkur

Hér kemur samningurinn í heild sinni , félagmenn eru hvattir til þess að kynna sér innihaldið.

Velkist menn í vafa , þá er bara að hafa samband

kjarasamningur_sfs-og-svg_15112016_
Samningur

milli

Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)
og
Samtaka atvinnulífsins (SA)

annars vegar

og

hins vegar

Sjómanna- og Vélstjórafélags Grindavíkur (SVG)
um framlengingu á kjarasamningi aðila með eftirfarandi breytingum:
1. Hækkun kaupliða
Grein 1.03 í kjarasamningi SFS og SVG orðist þannig vegna breytinga á kauptryggingu og annarra kaupliða:

„Þann 1. nóvember 2016 verður kauptrygging háseta kr. 288.168, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 360.210 og yfirvélstjóra kr. 432.252. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 9,6%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 328.334.

Þann 1. maí 2017 verður kauptrygging háseta kr. 301.136, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 376.420 og yfirvélstjóra kr. 451.704. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 4,5%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 343.109.

Þann 1. maí 2018 verður kauptrygging háseta kr. 310.170, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanns og netamanns kr. 387.713 og yfirvélstjóra kr. 465.255. Aðrir launaliðir en starfsaldurálag og tímakaup hækka um 3,0%. Mánaðarlaun aðstoðarmanns í eldhúsi á frystitogurum verða kr. 353.402.“

Þann 1. desember 2018 verður kauptrygging háseta kr. 326.780, kauptrygging matsveins, fyrsta og annars vélstjóra og vélavarðar, bátsmanna og netamanns kr. 408.476 og yfirvélstjóra kr. 490.170.

Tímakaup skal miðast við deilistuðulinn 173,33 í kauptryggingu. (Aðrar deilitölur hjá vélstjórum).

Fæðispeningar tóku hækkun um 2,1% 1. júní 2016 sl. (vísitala 167,3 stig m.v. janúar 2008 sem grunn) og skulu síðan endurskoðaðir árlega þann 1. maí ár hvert á gildistíma samningsins, fyrst þann 1. maí 2017, og taka þá breytingum miðað við matvörulið vísitölu neysluverðs sem birt er af Hagstofu Íslands í apríl ár hvert.

2. Mælingar skipa
Ný málsgrein bætist við gr. 1.32 í kjarasamningi SFS og SVG:

„Útgerð skal brúttórúmlestamæla skip sem það er með í rekstri, hafi skipið ekki verið með slíka mælingu fyrir. Mælingin skal skráð í skipaskrá.“
3. Olíuverðsviðmiðun
Grein 1.29.1 í kjarasamningi SFS og SVG orðist þannig vegna breytinga á olíuverðsviðmiðun:

„Skiptaverð innanlands og á vinnsluskipum skv. olíuverðsviðmiðun:
Frosinn botnfiskur Frosin rækja
Innanlands fob cif fob cif Heimsmarkaðsver á gasolíu $ fob/tonn
80% 77,00% 71,50% 74,00% 68,50% Lægra en 164,00 USD
79% 76,50% 71,00% 73,50% 68,00% 164,00 USD 184,99 USD
78% 76,00% 70,50% 73,00% 67,50% 185,00 USD 205,99 USD
77% 75,50% 70,00% 72,50% 67,00% 206,00 USD 226,99 USD
76% 75,00% 69,50% 72,00% 66,50% 227,00 USD 247,99 USD
75% 74,50% 69,00% 71,50% 66,00% 248,00 USD 268,99 USD
74% 74,00% 68,50% 71,00% 65,50% 269,00 USD 289,99 USD
73% 73,50% 68,00% 70,50% 65,00% 290,00 USD 310,99 USD
72% 73,00% 67,50% 70,00% 64,50% 311,00 USD 331,99 USD
71% 72,50% 67,00% 69,50% 64,00% 332,00 USD 352,99 USD
70% 72,00% 66,50% 69,00% 63,50% 353,00 USD og hærra

4. Frystitogarar
Grein 5.22 í kjarasamningi SFS og SVG orðist svo:

„Skiptakjör.
30,5% miðað við 20 menn
31,0% miðað við 21 mann
31,5% miðað við 22 – 24 menn
32,0% miðað við 25 menn
32,5% miðað við 26 menn
33,0% miðað við 27 menn

Ef færri menn eru um borð en að ofan greinir skal skiptaprósentan lækka um 0,8 fyrir hvern mann sem á vantar.

Fyrir hvern mann sem er um borð umfram 27, skal skiptaprósentan hækka um 0,1%.

Fyrir frystitogara þar sem fjöldi í áhöfn hefur á tímabilinu 1.4.2000 – 1.4.2001 að jafnaði verið undir 20 verða ný viðmiðunarmörk vegna skiptingar milli áhafnar og útgerðar 18 menn. Skiptaprósentan á þessum skipum skal vera 30,5% miðað við 18-20 menn.“

Við grein 5.24 í kjarasamningi SFS og SVG bætist ný málsgrein við sem verður 2. mgr. og orðist svo:

„Á frystitogara með 30 eða fleiri í áhöfn og fleiri en eina flökunarvél skulu umsjónarmenn fiskvinnsluvéla að öllu jöfnu vera 4 og skal hver fyrir sig hafa 1 1/16 hásetahlut fyrir það starf. Sé um það samkomulag milli áhafnar og útgerða er heimilt að umsjónarmenn fiskvinnsluvéla séu tveir og skal þá hvor fyrir sig hafa 1 1/8 háestahlut.“

Grein 5.31 í kjarasamningi SFS og SVG orðist svo:

„Séu 25 menn eða færri í áhöfn skal háseti aðstoða matsvein 2½ klst. á sólarhring eftir óskum matsveins. Sú aðstoð skal fara fram á vinnuvakt hásetans.

Séu 26 menn í áhöfn eða fleiri skal vera aðstoðarmaður matsveins, og telst hann ekki til eiginlegrar skipshafnar við ákvörðun á mannafjölda og skiptaprósentu. Aðstoðarmaðurinn skal hafa föst mánaðarlaun skv. kaupskrá aðila, sem greiðist af útgerð skipsins, óháð hlutaskiptum annarra skipverja. Vinnutími hans skal vera 10 klst. á sólarhring á tímabilinu frá kl. 08:30 til kl. 22:00 eftir nánari ákvörðun matsveinsins. Sé aðstoðarmaður ekki um borð skal matsveinn fá laun aðstoðarmannsins til viðbótar sínum aflahlut. Útgerðarmaður skal hafa samráð við matsveininn, ef gera þarf lagfæringar í eldhúsi vegna fjölgunar í áhöfn skipsins.“
5. Ný skip
Við bætist ný málsgrein í lok gr. 1.39.2:

Að sjö árum liðnum frá undirritun samnings þessa eða frá 1. desember 2023, verður ákvæði þetta tímabundið. Í sjö ár frá 1. desember 2023 skal þeim skipum sem fyrst verða tekin í notkun heimilt að nýta ákvæði þetta, að uppfylltum skilyrðum þess, en þó aldrei lengur en til 1. desember 2030 þegar ákvæðið fellur úr gildi.
6. Hlífðarfatapeningar
Hlífðarfatapeningar skipverja á mánuði skulu vera sem hér segir skv. gr. 1.07:

Hlífðarfatapeningar undirmanna kr. 11.400,- á mánuði
Hlífðarfatapeningar vélstjóra og vélavarða kr. 9.700,- á mánuði
Hlífðarfatapeningar dekkmanna á frystiskipum kr. 14.900,- á mánuði

Hlífðarfatapeningar á línubátum með beitningavél á útilegu eru kr. 8.700. á mánuði, séu tekjur undir 70.000 kr. á úthaldsdag, sbr. gr. 2.06.

Útgerð skal hafa val um hvort að hún sjái skipverjum fyrir viðurkenndum hlífðarfatnaði sem verði eign útgerðar, en í umsjón skipverja. Útvegi útgerð hlífðarfatnað, þá fellur greiðsla hlífðarfatapeninga niður.

Línuuppbót
Ný málsgrein bætist við gr. 2.06:

Skipverji sem er á línubátum með beitningavél á útilegu sem hefur verið 60 til 160 daga á sjó skal fá greidda línuuppbót miðað við fjölda úthaldsdaga á sjó. Hafi skipverji verið fleiri en 160 daga á sjó skal hann njóta fullrar línuuppbótar, en annars hlutfallslega þar sem uppbótin lækkar um 1% hvern fækkaðan dag. Óskert línuuppbót skal vera kr. 120.000 og greiðist fyrir 15. janúar ár hvert miðað við úthald síðastliðins almanaksárs. Skipverji sem hefur tekjur yfir kr. 70.000 á hvern úthaldsdag, á ekki rétt á þessari greiðslu. Hætti skipverji störfum hjá útgerð fyrir lok almanaksárs, skal hann fá línuuppbót greidda við lokauppgjör.

Skipverji sem er á línubátum með beitningavél á útilegu og hefur tekjur yfir kr. 70.000 á úthaldsdag fær greiddan hlífðarfatapening undirmanna, sbr. gr. 1.07.
8. Orlof
Við grein 1.15 bætist við ný málsgrein:

Skipverji sem öðlast hefur aukinn orlofsrétt hjá sama vinnuveitanda eða á sama skipi öðlast hann að nýju eftir 3 ár hjá nýjum vinnuveitanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur af vinnuveitanda.
9. Helgar- og hafnarfrí
Ný málsgrein í lok gr. 2.13:
Útgerð og áhöfn er heimilt að semja um að frí á föstudaginn langa og páskadag komi til lengingar á fríi við sjómannadaginn.

Breytt málsgrein í lok gr. 5.05:
Á föstudaginn langa, páskadag og sjómannadaginn skal ekki róið eða verið á sjó. Þetta ákvæði gildir ekki gagnvart togskipum 39 metrar eða lengri, og þegar skip er á veiðum fyrir erlendan markað. Útgerð og áhöfn á togskipum 39 metrum eða styttri er engu að síður heimilt að semja um að frí á föstudaginn langa og páskadag komi til lengingar á sjómannadagsfríi.

Ný málsgrein í lok 8.03, humarveiðar:
Heimilt er SFS vegna einstakra útgerða og stéttarfélögum viðkomandi skipverja að semja um að hafnarfrí verði tekin í frítúrum þannig að skipið stoppi ekki umfram þann tíma sem tekur að landa afla og búa skipið undir næstu veiðiferð. Í slíkum samningi skal kveðið á um að tekið verði upp skiptimannakerfi þannig að hver skipverji vinni að jafnaði 22 daga í hverjum mánuði, en eigi frí aðra daga mánaðarins. Komi til þess að ekki fiskist fyrir kauptryggingu innan mánaðar skal greiða hverjum skipverja kauptryggingu miðað við fullan mánuð enda hafi viðveruskylda skipverjans verið 22 dagar í mánuðinum. Heimilt er skipverjum í samráði við útgerð að ákveða jafnaðarlaunakerfi samhliða því að slíkt skiptimannakerfi er tekið upp.

Breyting á grein 1.43
Brjóti útgerð gegn samningi þessum skal viðkomandi stéttarfélag senda hlutaðeigandi útgerð athugasemd með sannanlegum hætti, þar sem meintu broti gegn tilgreindu ákvæði kjarasamnings er lýst og afstaða stéttarfélags rökstudd. Skal þá veita útgerð hæfilegan frest til athugasemda. Brot gegn samningi varða sektum, allt að kr. 454.972. Sektarfjárhæð skal renna í félagssjóð viðkomandi stéttarfélags. Sé um verkfallsbrot að ræða getur hlutaðeigandi stéttarfélag sektað útgerð um framangreinda fjárhæð án viðvörunar. Sektarupphæð skal hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins.

Kauptrygging, gr. 1.04
Lokamálsgrein gr. 1.04 verður breytt og orðist eftirleiðis:

Skipverji skal fá greidda kauptryggingu mánaðarlega að frádregnum fæðiskostnaði að þeim hluta, sem skipverja ber að greiða sjálfur, sbr. samkomulag um greiðslu upp í fæðiskostnað. Heimilt er skipverja að semja um annað fyrirkomulag.

Sérsamningar
Ný málsgrein bætist við gr. 1.42:
Samningar sem gerðir eru á milli áhafnar og útgerðar gilda jafnt um þá skipverja sem eru við störf þegar samningur er samþykktur og þá sem síðar ráðast til starfa, enda hafi þeim verið kynnt efni þeirra við ráðningu.

Sala aflans, gr. 1.28

Almennt
Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986, sbr 10. gr. laga nr. 79/1994 um breytingu á lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun með síðari breytingum.

Eftirfarandi ákvæði eiga ekki við í þeim tilvikum, þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði.

Útgerðarmaður skal hafa samráð við fulltrúa, sem kjörinn er af áhöfn í einfaldri kosningu, um áformaða sölu aflans fyrir a.m.k. mánuð í senn, og gera honum grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð. Tilkynna ber útgerð um hver sé kosinn trúnaðarmaður skipverja hverju sinni. Trúnaðarmaður skipverja skal hafa aðgang að samningum, reikningum og öðrum gögnum sem liggja til grundvallar verði einstakra fisktegunda, óski hann sérstaklega eftir því.

Við upphaf vertíðar í loðnu, kolmunna, makríl og síld, skulu fulltrúar útgerða halda fund með fulltrúum sjómanna sem eru í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs.

Útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að slíkur samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samingurinn skal vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra fisktegunda, stærð, gæði, markaðs- og gengisviðmið og áætluð ráðstöfun, gildistími og uppsagnarákvæði o.s.frv.

Telji meirihluti áhafnar að samningur um fiskverð sé í andstöðu við kjarasamning þennan, skal leita úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Með skyldum aðilum er átt við að útgerð og vinnsla séu í ráðandi eigu sömu aðila.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna
Samkvæmt lögum nr. 13/1998 hefur Verðlagsstofa skiptaverðs það hlutverk að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut. Við reglulega upplýsingagjöf til Verðlagsstofu vegna þessa skal styðjast við staðlað form sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur samþykkt.

Verðlagsstofa skiptaverðs annast rannsókn einstakra mála. Óski Verðlagsstofa skiptaverðs eftir gögnum frá aðilum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1998, munu aðilar leggja sig fram um að veita allar þær upplýsingar sem óskað er eftir, eins fljótt og kostur er.

Úrskurðarnefndin er skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila og oddamanni sem skipaður er af sjávarútvegsráðherra að höfðu samráði við samningsaðila. Nefndin skal láta í té rökstutt álit á því hvort tillaga að fiskverði víki frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun aflans. Skal þá taka tillit til fiskverðs í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum svo og horfa á þróun afurðaverðs og þá m.a. styðjast við tiltækar upplýsingar um fiskverð sem unnar eru fyrir samningsaðila af Verðlagsstofu skiptaverðs. Náist ekki samkomulag milli fulltrúa samtaka sjómanna og útvegsmanna í úrskurðarnefndinni innan 14 daga frá því mál er lagt fyrir hana, skal kveðinn upp úrskurður innan 7 daga og gildir hann þá frá því nefndinni barst málið til úrlausnar. Samkomulag eða úrskurður nefndarinnar skal gilda í allt að 3 mánuði eftir nánari ákvörðun hennar. Samkomulag eða úrskurður nefndarinnar er bindandi fyrir aðila á gildistímanum og skal lúta almennum réttarfarsreglum um samningsbundna gerðardóma, sbr. lög nr. 53/1989.

Ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila
Þegar afli er seldur milli óskyldra aðila, skal skipt úr því verði sem fyrir aflann fæst hverju sinni, sbr. 1 mgr. I. kafla. Ef afli er seldur beint milli óskyldra aðila án milligöngu innlendra eða erlendra fiskmarkaða, getur áhöfn krafist samnings um uppgjörsverð fyrir þann afla.

Kjósi áhöfn að kalla eftir slíkum samningi, skal það gert með minnst fimm sólarhringa fyrirvara og skal samningstími ekki vera lengri en þrír mánuðir. Náist ekki samkomulag um uppgjörsverð milli meirihluta áhafnar og útgerðar, skal vísa málinu til úrskurðar nefndar, skv. II. kafla, og skal þá taka tillit til heildarráðstöfunar aflans. Nefndin skal flýta störfum eins og kostur er og náist ekki samkomulag innan sjö sólarhringa skal kveðinn upp úrskurður innan fjögurra sólarhringa. Fiskverð skv. þessu skal gilda frá því úrskurður fellur, nema samkomulag sé um annað.

Markmið um fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila
Miða skal við það markmið að fiskverð miðist að jafnaði við 80% af vegnu meðalverði á grundvelli magns síðastliðinna þriggja mánaða á innlendum fiskmarkaði, að frádregnum 5% kostnaði (skilaverð markaðar). Við útreikning á skilaverði markaðar skal að hámarki reikna 3% undirmálsþorsk í meðalverð hvers mánaðar.

Verðlagsstofa skiptaverðs skal setja fram lýsingu á sambandi milli þyngdar á fiski og verðs á hvert kíló. Í þessu sambandi skal Verðlagsstofa setja fram lýsingu á a.m.k. slægðum og óslægðum þorski, slægðri og óslægðri ýsu og karfa. Skal þetta samband þyngdar og verðs haft til hliðsjónar til að ná þeim samningsmarkmiðum sem lýst er hér á eftir.

Verð á ufsa skal taka breytingum í samræmi við breytingar á afurðaverði samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands

Verðlagsstofa skiptaverðs annast alla nánari útreikninga og framsetningu og sker úr hugsanlegum ágreiningi sem upp kann að koma um túlkun á efnisatriðum.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skal með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. beita sér fyrir því, ef á þarf að halda, að ofangreind markmið náist.

Tímabundin breyting skiptaprósentu
Samningsaðilar eru sammála um að framkvæma athugun á mönnun og hvíldartíma í íslenska fiskiskipaflotanum. Lögð skal áhersla á að setja athugun á uppsjávarskipum í forgang og kynna samningsaðilum niðurstöðu þeirrar könnunar, enda þótt að athugun standi enn yfir vegna annarra fiskiskipaflokka.

Ákveði útgerð að hafa átta skipverja um borð á uppsjávarskipi í stað níu, þ.e. samkvæmt greinum 6.02, 7.02 og 11.01, þá skal hlutur skipverja af skiptaverðmæti skipsins vera tímabundið 21,35%, að hámarki í 12 mánuði frá undirritun samnings þessa. Að þeim tíma liðnum skal þessi tímabundna breyting falla niður og hlutur skipverja af skiptaverðmæti verður aftur 20,8%.

Þetta frávik er ekki fordæmisgefandi fyrir mönnun eða hvíldartíma um borð á uppsjávarskipum.
15. Samningsforsendur.
Geri nefnd sú sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði breytingar á þeim samningi vegna breyttra samningsforsendna eru samningsaðilar sammála um að gera samsvarandi breytingar á kauptryggingu og launaliðum samningsins. Komist nefndin ekki að samkomulagi skulu aðilar endurskoða launalið samningsins.
Gildistími
Með þeim breytingum sem hér eru gerðar framlengist kjarasamningur aðila til 31. desember 2018 og rennur þá úr gildi án uppsagnar.

Reykjavík 15. nóvember 2016

Með fyrirvara um samþykki stjórnar SFS og stjórnar Sjómanna- og Vélstjórafélags Grindavíkur,
f.h. f.h.
Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi Sjómanna- og Vélstjórafélags
og Samtaka atvinnulífsins Grindavíkur

Bókun um slysa- og veikindarétt
Samningsaðilar eru sammála um að vinna að því að aðlaga réttindaumhverfi slysa- og veikindaréttar í skiptimannakerfum. Á síðastliðnum árum hefur aukist verulega að settar hafi verið skiptimannaáhafnir á skip, enda hefur það skapað betra starfsumhverfi um borð og innan fyrirtækjanna. Þannig er markmið aðila að tryggja réttindaumhverfi skipverja og útgerða í skiptimannakerfum.
Bókun um fjarskipti
Skoða skal hvernig fjarskiptamál eru um borð í skipum sem sigla út fyrir dreifikerfi fjarskiptafyrirtækja, en tryggja verður að rekstur skips og öryggi þess og áhafnar sé alltaf í forgangi vegna notkunar fjarskiptabúnaðar. Lokið fyrir 1. júlí 2017.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00