Sjómenn stofnuðu Verkalýðsfélag Grindavíkur í upphafi

sagamynd

Í upphafi var Verkalýðsfélag Grindavíkur fyrst og fremst sjómannafélag. Starf félagsins snerist einkum um að ná fram viðunandi samningum um hlutaskipti og kjör sjómanna. Með tímanum fór félagið hins vegar að vinna sífellt meira að þeim málum, sem vörðuðu kjör verkafólks í landi. Á aðalfundi Verkalýðsfélagsins haustið 1956 urðu nokkrar umræður um stöðu sjómanna innan félagsins, og kom þar skýrt fram, að menn töldu nauðsynlegt að stofna sjómannadeild innan þess.Í framhaldi af því var samþykkt svohljóðandi tillaga: ,,Aðalfundur haldinn í Verkalýðsfélagi Grindavíkur sunnudaginn 7. október 1956 samþykkir að fela félagsstjórninni að hafa forgöngu um stofnun Sjómannadeildar innan.“

Hinn 21. október boðaði stjórnin síðan til fundar í Kvenfélagshúsinu, og fram kom, að aðalverkefni fundarins væri að stofna sjómannadeild innan Verkalýðsfélagsins. Á fundinn mættu 29 menn sem hafa unnið við bátaflotann að undanförnu og hafa í hyggju að gera framvegis og var Sjómannadeildin stofnuð með þessum stofnendum

Formaður Verkalýðsfélagsins, Svavar Árnason, las upp reglugerð fyrir sjómannadeildina, en í annarri grein hennar sagði, að tilgangur deildarinnar væri að gæta hagsmuna sjómanna og fara með kjarasamninga fyrir þá, og yfirleitt fjalla um öll þau félagslegu málefni, sem sjómannastéttina varða.

Eftir að fundarmenn höfðu samþykkt reglugerðina, fór fram stjórnarkosning, og var Ragnar Magnússon kosinn formaður og Þórarinn Ólafsson ritari.

Árið 1979 urðu þær breytingar á högum Sjómannadeildarinnar, að vélstjórar bættust í hópinn, og var þá um leið samþykkt, að framvegis skyldi deildin heita Sjómanna- og vélstjóradeild Grindavíkur. Ekki voru það einu breytingarnar, því framundan voru minnkandi tengsl við Verkalýðsfélagið. Á fundi Verkalýðsfélagsins haustið 1972 óskaði formaður Sjómanna- og vélstjóradeildarinnar eftir því, að félögin hefðu aðskildar stjórnir og fulltrúaráð fyrir þá sjóði, sem ekki væru sameiginlegir.

Fundarmenn féllust á að hafa þann háttinn á framvegis, en stefnan var nú tekin á fullt sjálfstæði deildarinnar. Haustið 1974 var Verkalýðsfélaginu tilkynnt að eftirleiðis myndu félagsmenn Sjómanna- og vélstjóradeildarinnar skipa sinn gjaldkera sjálfir og hefðu félögin því framvegis hvort sinn gjaldkerann. Fljótlega eftir þetta var skipuð nefnd innan deildarinnar til að athuga og undirbúa ný lög og nafnabreytingu hennar. Árið 1976 voru samþykkt ný lög fyrir Sjómanna- og vélstjóradeildina, hún leyst undan öllum skyldum við Verkalýðsfélagið og gerð að sjálfstæðu félagi undir nafninu Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.

Á fundi á vordögum 1977 bar Kjartan Kristófersson upp þá tillögu að byggja húsnæði fyrir félagið, var það samþykkt. Á sama fundi bar Sverrir Jóhannsson upp þá tillögu að félagið kæmi sér upp félagsfána. Á fundi þann 14. júní 1977 kynnti Kjartan lóð og teikningar af fyrirhugaðri byggingu. Allir voru samþykktir byggingu hússins, þá var ákveðið að tala við Guðmund Ívarsson í Grindinni um að taka verkið að sér, sem og hann gerði.

Fyrsti fundur félagsins í hinu nýja húsi félagsins, sem heitir Sjómannastofan VÖR. Kjartan Kristófersson á tillöguna að nafni hússins, ber það nafn með réttu, þar er jafnan gott að lenda og þiggja ljúfar veitingar sem bornar eru fram af vertanum og hjartahlýjum starfsstúlkum, var haldinn hinn 6. janúar 1979, þá beitti félagið sér fyrir því að reistur yrði minnisvarði fyrir drukknaða sjómenn.

Á fundi 27. febrúar 1978 beindi Kjartan formaður þeirri ósk til félagsmanna að gefa fisk til fjáröflunar minnisvarða drukknaðra manna í Grindavík, þessi ósk formannsins var samþykkt samhljóða.

Á sjómannadaginn 1989 kom út fyrsta tölublað Sjómannadagsblaðs Grindavíkur sem Sjómannadagsráð félagsins gefur út. Hefur blaðið verið fastur þáttur í hátíðahöldum Sjómannadagsins síðan, og er orðinn ómissandi þáttur í tilverunni.

Félagið á tvo sumarbústaði sem nánari skil eru gerð á hér.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00