Réttindi og skyldur sjómanna í slysa-og veikindatilfellum

Hér á eftir eru rakin í stuttu máli helztu atriði varðandi réttindi og skyldur sjómanna í slysa- og veikindatilfellum skv. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. gr. 1.21 í kjarasamningi S.S.Í og L.Í.Ú varðandi sjómenn á fiskiskipum.

Óvinnufær og í ráðningarsambandi.
Til þess að eiga rétt á slysa- eða veikindalaunum er það frumforsenda, að sjómaðurinn sé annars vegar í ráðningarsambandi við útgerð og hins vegar óvinnufær skv. læknisvottorði. Sé sjómaðurinn hættur, þegar óvinnufærnin kemur í ljós, á sjómaðurinn ekki réttinn hjá þeirri útgerð, sem hann var hjá, þótt rekja megi óvinnufærnina til veru hans þar. Sé hann á hinn bóginn kominn til starfa hjá annarri útgerð og hann verður þar óvinnufær, þá ber þeirri útgerð að greiða forfallakaup vegna óvinnufærni, nema sjómaðurinn hafi leynt því vísvitandi við ráðningu sína, að hann væri haldinn þessum sjúkdómi eða meiðslum, sem væntanlega myndi gera hann óvinnufæran.

Þótt sjómaður slasist jafnvel á síðasta degi ráðningartíma síns hjá útgerð þarf hún samt að greiða sjómanninum full laun allan tveggja mánaða staðgengilslaunatímann meðan á óvinnufærni stendur og skiptir þá engu máli, að sjómaðurinn sé í skiptimannakerfi. Verði sjómaður óvinnufær áður en hann fer í frí, þá þiggur hann forfallakaup, eins og hann hefði ekki ætlað í frí, en tekur þá sér launalaust frí seinna, þegar hann er orðinn heill heilsu. Verði sjómaður hins vegar óvinnufær í launalausu fríi, þá þiggur hann laun frá og með þeim tíma að fríinu lýkur og þá fyrst byrjar fyrsti dagur forfallanna að teljast launalega séð. Nauðsynlegt er því, að fyrir liggi strax við töku frísins, hve lengi launalausa fríið átti að standa, sérstaklega þar sem ekki er um frítúrakerfi að ræða.

Óvinnufærni veitir ekki sjálfkrafa launarétt
Á það skal bent, að þótt fyrir liggi læknisvottorð um óvinnufærni, þá þarf það ekki sjálfkrafa að þýða, að sjómaðurinn eigi rétt á forfallakaupi. Óvinnufær þýðir það, að sjómanninum sé ókleift að inna starf sitt af hendi eða honum er brýn nauðsyn að leita sér lækninga og þá aðeins tímaspursmál, hvenær honum verður það ókleift að vinna, þ.e mjög stutt í það. Hefur oft risið upp ágreiningur um það, hvort sjómaður sé óvinnufær í merkingu 36. gr. sjóm.l, þótt hann hafi eða þurfi að gangast undir skurðaðgerð. Er þá deilt um það, hvort sjómaðurinn hafi verið vinnufær, þegar hann fór í aðgerðina, en orðið þá fyrst óvinnufær, þegar læknirinn var búinn að skera í hann, þ.e verður í raun óvinnufær af völdum læknisins. Sjómaðurinn hafi með öðrum orðum farið í svokallaða valkvæða aðgerð, t.d æðahnútaaðgerð, sem ekki hafi verið brýn nauðsyn á og hefði mátt framkvæma síðar. Af þeim ástæðum hafi útgerðin neitað greiðsluskyldu, þótt fyrir liggi læknisvottorð um óvinnufærni. Þurfa sjómenn að hafa þetta í huga, því ekki er sjálfgefið að greiðsluskylda útgerðar sé alltaf fyrir hendi, þótt sjómaður sé óvinnufær.

Tímalengd greiðsluskyldu útgerðar
Í stuttu máli er reglurnar í 36. gr. sjóm.l varðandi tímalengd greiðsluskyldu útgerðar þannig, að fyrstu tvo mánuði óvinnufærninnar eiga skipverjar að fá full laun, þ.e þau laun sem viðkomandi staða gaf, svokallað stöðugildi, þrátt fyrir það að sjómaðurinn hafi verið í skiptimannakerfi og hefði sjálfur ekki haft nema t.d 2/3 eða ½ þeirra launa er stöðugildið gaf í laun. Þetta byggist á túlkun Hæstaréttar í mörgum dómum þess efnis að sjómaður, sem verður óvinnufær, geti ekki á sama tíma talizt vera í launalausu fríi og notið frísins, eins og venjulega, en verði í þess stað að taka sér launalaust frí seinna eftir að óvinnufærni lýkur. Þetta hafa sumar útgerðir ekki getað sætt sig við og halda áfram í dag að virða að vettugi dóma Hæstaréttar með þeim rökum, að óvinnufær sjómaður græði á óvinnufærninni og fái greitt meira en hann hefði fengið sjálfur heill heilsu.

Til viðbótar fullum launum í fulla tvo mánuði á sjómaður sem ráðinn hefur verið samfellt á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár, rétt á kauptryggingu (fast kaup hjá farmönnum) í einn mánuð í viðbót  við tveggja mánaða greiðslu fullra launa, en í tvo mánuði hafi hann starfað samfellt í fjögur ár.

Rétt er að árétta það, að í veikindatilvikum á óvinnufær sjómaður aðeins rétt á jafmörgum dögum og hann hefur verið í þjónustu útgerðarinnar í allt að tvo mánuði. Þannig á t.d skipverji, sem starfað hefur aðeins í 10 daga, rétt á fullu kaupi í jafnmarga daga. Á hinn bóginn gildir sú regla, að skipverji, sem slasast í vinnuslysi, jafnvel þótt á fyrsta degi ráðningartímans sé, eigi rétt á 5 mánaða kaupi (fullt kaup fyrstu 2 mánuðina en kauptryggingu næstu 3 mánuðina). Hámarksgreiðslutími útgerðar getur því orðið 7 mánuðir í vinnuslysum, hafi viðkomandi starfað í 4 ár samfellt eða lengur á sama skipi eða hjá sama útgerðamanni. Hér má bæta við, að skv. gr. 1.21 kjarasamningsins getur sjómaður átt rétt á  tveggja mánaða kauptryggingu þessu til viðbótar þurfi hann að gangast undir aðgerð, sem læknisfræðilega telst nauðsynleg til að draga úr eða eyða varanlegum afleiðingum vinnuslyss. Getur því hámarkslaunaréttur sjómannsins vegna óvinnufærni orðið alls 9 mánuðir, ef svo ber undir.

Lok óvinnufærni
Um lok óvinnufærni fer eftir því, hvað segir í læknisvottorði. Sjómaður getur þó átt rétt á forfallakaupi í lengri tíma en til þess tíma að sjómaðurinn á þess kost á að hefja störf að nýju, enda þótt hann sé orðinn aftur vinnufær. Ljúki forföllum sjómanns á meðan skip er í veiðiferð og ekki er hægt að koma honum um borð, ber útgerðarmanni að greiða honum samt forfallakaup alla veiðiferðina. Á hinn bóginn er útgerðarmanni heimilt að láta sjómanninn vinna við störf í landi, er tengjast viðkomandi skipi og búnaði þess, enda geti störfin fallið undir verkahring sjómannsins, t.d háseti látinn vinna á netaverkstæði útgerðar við veiðafæri skipsins o.s.frv. Skal áréttað að sjómaðurinn fær eftir sem áður greidd sín forfallalaun alla veiðiferðin, en fær engin sérstök laun fyrir sína vinnu í landi. Eins og alltaf þarf hann að tilkynna útgerðinni, þegar hann er orðinn vinnufær og breytir engu, þótt skipið sé í miðjum túr.

Ítrekuð forföll vegna sama sjúkdóms eða meiðsla
Vakin er athygli á því, að þegar um er ræða ítrekuð forföll af völdum  sama sjúkdómsins eða meiðsla hjá sömu útgerð, þá tæmist forfallakaupsrétturinn og endurnýjast aldrei á ráðningartímanum hjá sömu útgerð, hvorki á 12 mánaða fresti eða á öðru tímabili, eins og dæmi eru til um hjá öðrum launþegum. Þetta þýðir það, að þegar sjúkdómur eða meiðsl taka sig upp, að menn byrja á því að tæma tímabil fullra launa og síðan kauptryggingarþáttinn, unz viðkomandi sjómaður hefur fengið greitt allan þann tíma, sem hann átti rétt á að fá forfallakaup.

Skyldur sjómanna í slysa- og veikindatilvikum
Sjómenn, sem verða óvinnufærir á ráðningatíma hjá útgerð, eiga ekki eingöngu rétt, þeir bera líka skyldur. Í fyrsta lagi þarf sjómaður að tilkynna útgerðinni strax um veikinindi sín eða meiðsl liggi það ekki alveg ljóst fyrir. Einkum er áríðandi að sjómaður, sem verður fyrir meiðslum, sem engin vitni eru kannski að, að hann láti skipstjórann eða útgerðina strax vita, svo hægt sé að skrá það í dagbók skipsins. Er það lagaskylda útgerðar að tilkynna til Tryggingastofunar ríkisins um vinnuslys, sem einnig gefur útgerðinni kost á endurgreiðslu á launum vegna vinnuslyss. Jafnframt verður slík tilkynning sönnun um tilurð slyssins og tildrög, sem er sérstaklega þýðingarmikið, ef slysið leiðir til varanlegrar örorku.

Sjómanni ber við fyrsta tækifæri að leita læknis og getur síðan með því sannað óvinnufærni sína með læknisvottorði. Ber honum að afhenda útgerðinni læknisvottorðið og síðari vottorð og láta skipstjórann eða útgerðina fylgjast allan tímann með gangi forfallanna,enda þar útgerðin oftast að kalla til afleysingamann. Við lok óvinnufærni skal sjómaðurinn tilkynna sig til vinnu og afhendir útgerðinni lokavottorðið.

Sjómanna og vélstjórafélag Grindavíkur
Hér að framan hefur verið drepið á nokkra helztu þætti varðandi rétt sjómanna og skyldur í slysa- og veikindatilfellum. Þar sem ljóst er að forfallatilvikin geta verið mjög margbreytileg og margs að gæta, þá er félagsmönnum Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur bent á að leita til félagsins með fyrirspurnir sínar  eða til lögmanna félagsins, Lögmanna Borgartúni 18 sf, sem veita allar upplýsingar um réttarstöðu manna í þessum efnum svo og öllu því, sem varðar túlkun kjarasamninga og sjómannalaga.
Vinnuslys og skaðabótaréttur sjómanna.

Í maí 2001 sömdu sjómannasamtökin um róttæka breytingu á  þeim reglum, sem giltu um skaðabótarétt sjómanna vegna vinnuslysa, sem margir vilja meina að hafi verið ein stærsta kjarabót, sem sjómenn hefðu samið um síðustu áratugina.

Fram að þeim tíma giltu ákvæði 9. kafla siglingalaganna nr. 34/1985. Annars vegar var um að ræða svokallaða hlutlæga ábyrgð, en úr henni fengust greiddar bætur fyrir varanlega örorku í öllum slysatilvikum, hvernig svo sem slysið bar að höndum, svo framalega sem sjómaðurinn hafði ekki slasast vegna ásetnings eða vítaverðs gáleysis. Úr þessari tryggingu fengust ekki háar bætur. Til þess að fá líkamstjón sitt að fullu bætt, þá þurftu að koma til viðbótar bætur úr ábyrgðartryggingu útgerðar . Til þess að það mætti verða, þá þurfti hinn slasaði sjómaður að sýna fram á að slysið væri ekki óhappaslys eða honum sjálfum að kenna, heldur ættu skipsfélagar hans sök á slysinu eða að rekja mætti slysið til bilunar í búnaði skipsins eða annarra atriða, sem útgerðin bæri ábyrgð á. Leiddi þetta til endalausra málaferla, þar sem hinn slasaði þurfti í raun að troða sökinni á skipsfélaga sína eða útgerðina fyrir meintan vanbúnað eða vanstjórn. Slíkar nornaveiðar fóru eðlilega mjög í taugarnar á mönnum, sérstaklega skipstjórnarmönnum, sem máttu oft og tíðum þurftu að bera af sér sakir um meinta vanrækslu eða handvömm við verkstjórn eða stjórn skips.

Þetta breytist allt árið 2001, eins og áður sagði, en þá er ákveðið að nú skuli fara eftir almennum skaðabótalögunum varðandi bætur til sjómanna, sem þýðir það í raun að öll vinnuslys á sjómönnum bætast, nema slysið megi rekja til ásetnings eða stórfelld gáleysis sjómannsins, en þá má lækka bæturnar eða fella þær niður eftir atvikum.

Valdi vinnuslys á sjómanni honum varanlegu líkamstjóni, þá greiðast ferns konar skaðabætur, þ.e.a.s bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar, miska og varanlega örorku. Langstærsti hluti skaðabótagreiðslna liggur í varanlegu örorkunni, sem ræðst af þremur þáttum, þ.e hve há varanleg örokan er metin,  í öðru lagi af tekjum hins slasaða þrjú síðustu tekjuárin fyrir slysaár, þó að vissu hámarki, og í þriðja lagi af aldri sjómannsins. Ekki er hægt að meta varanlega örorku og þá hina þrjá þættina um leið, fyrr en svokölluðum stöðugleikatímapunkti er náð, þ.e afleiðingar slyssins eru komnar endanlega í ljós og ekki að vænta að ástandið breytist frekar. Er það þumalputtareglan, að það sé um ári eftir slys eða síðustu aðgerð, en getur verið fyrr eða síðar eftir eðli og alvarleika slyssins. Verður þó ekki hér farið nánar í saumana á því, hvernig þessi mál ganga fyrir sig í framkvæmd frá upphafi til enda, en þess mál geta verið flókin og margs að gæta.

Aðalatriðið er, að sjómenn átti sig á því, að þeir geta átt rétt á bótum úr slysatryggingu útgerðar jafnvel þótt vinnuslys, sem þeir hafa orðið fyrir, virðist í fyrstu ekki hafa valdið þeim varanlegu líkamstjóni eða sem nokkru varði, enda sjómenn þekktir fyrir að reyna að harka af sér og koma sér aftur til starfa. Hefur komið í ljós að margir sjómenn hafa ekki áttað sig á þessu, fyrr en þeim hefur verið bent sérstaklega á þennan slysabótarétt þeirra, sem þeir eiga og greiða hluta iðgjaldsins af á móti útgerð. Félagsmönnum Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur er sérstaklega bent á að leita til félagsins með fyrirspurnir sínar um þessi mál eða beint til lögmanna félagsins, Lögmanna Borgartúni 18 sf, sem sérhæft hafa sig í slysamálum sjómanna og munu sjá um slík mál frá upphafi til enda, sé þess óskað.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00