Óljóst hvort réttindi lífeyrisþega skerðast

Ekki kemur í ljós fyrr en í fyrsta lagi í janúar hvort skerða þarf lífeyrissgreiðslur. Sjóðirnir hafa skilað góðri ávöxtun síðustu ár sem vegur á móti tapinu nú. fréttablaðið/anton

Enn er óljóst hvort réttindi lífeyrisþega skerðast vegna taps sjóðanna. Það verður ekki ljóst fyrr en í tryggingafræðilegri úttekt sem Fjármálaeftirlitið vill að fari fram í janúar. Sjóðirnir hafa stungið upp á leið til að minnka líkur á skerðingu. Þá mun góð ávöxtun síðustu ára vega á móti skerðingu.

Lífeyrissjóðir landsins hafa síðustu fimm ár skilað jákvæðri raun­ávöxtun um rúmlega níu prósent. Um síðustu áramót voru eignir þeirra 1.700 milljarða króna virði og jukust þær um sjö prósent á aðeins einu ári. Í fyrra greiddu sjóðirnir út 46 milljarða króna í lífeyrisskuldbindingar.

Sjóðirnir hafa stungið upp á því að vikmörk í tryggingafræðilegri úttekt næsta árs verði hækkuð úr 10 í 15 prósent. Skuldbindingar sjóðanna mega ekki vera meiri en 10 prósent umfram eignir í úttektinni. Hækkun þeirra marka drægi úr líkunum á skerðingu lífeyris.

Óljóst er hve miklu lífeyrissjóðirnir hafa tapað á hruni efnahagskerfisins. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, telur þó meiri líkur en minni á að svo verði.

„Við eigum eftir að kanna stöðuna nákvæmlega, hve mikið tapið er. Það er mjög mismunandi eftir sjóðum, hver voru þeirra verðmæti og hvernig þeir eru uppbyggðir. Ég tel þó meiri líkur en minni að um einhverja skerðingu sé að ræða, en það ræðst þó ekki strax.

Menn eru að fara yfir skuldabréfaeign sjóðanna og hvernig hún skiptist á milli bankanna. Sjóðirnir eru með tap á gjaldmiðlaskiptasamningum. Í gjaldþrotalögum er heimild til að skuldajafna og við erum að skoða með hvaða hætti væri hægt að nýta hana.“

Hvað varðar hækkun vikmarka úr 10 í 15 prósent segir Hrafn það myndu nýtast sjóðunum vel. „Við stungum upp á því í aðgerðaáætluninni sem við unnum þegar þetta ferli hófst allt. Að fá heimild til þess, þó ekki væri nema í eitt ár, myndi breyta miklu.“

Hjá Fjármálaeftirlitinu fengust þær upplýsingar að ótímabært væri að segja til um hvort vikmörkin yrðu hækkuð, þar sem upplýsingar fyrir árið 2008 liggja ekki allar fyrir.

Vinna hefur staðið yfir um nokkra hríð um samspil almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna. Ekki náðist í Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra við vinnslu þessarar fréttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Vísir.is

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00