NAFN FÉLAGSINS OG HLUTVERK
1. KAFLI
1.gr.
Nafn félagsins er Sjómanna og vélstjórafélag Grindavíkur. Félagssvæði þess er Grindavík. Félagið er aðili að Sjómannasambandi Íslands sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Grindavík.
2.gr. Tilgangur félagsins er:
- a) Að sameina alla starfandi sjómenn og vélstjóra sem heimili eiga á félagssvæðinu.
- b) Að vinna að sameinlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.
- c) Að hafa nána og vinsamlega samvinnu við öll verkalýðsfélög innan ASÍ.
3.gr. Réttur til inngöngu í félagið:
- Þeir sem atvinnu stunda á sjó eða eru ráðnir í skipsrúm, svo sem háseta, bátsmenn, netamenn, vélstjórar og matsveinar, ennfremur vélstjórar sem vinna við vélgæslu og skyld störf í landi.
- Eru búsettir á félagssvæðinu.
- Eru fullra 16 ára að aldri.
- Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ, sem viðkomandi hefur verið í.
- Eru ekki fullgildir félagsmenn í öðru félagi innan ASÍ.
- Eru ekki atvinnurekendur eða verkstjórar sem eingöngu stunda verkstjórn.
4.gr. Ákvæði um aukafélaga:
- Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga menn, sem búsettir eru utan umdæmis félagsins, unglinga innan 16 ára aldurs og aðra sem stunda vinnu í greininni á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eiga ekki rétt til inngöngu í félagið.
- Aukafélagar greiði gjald sem samsvarar fullu félagsgjaldi á meðan þeir eru á fæelagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en ekki atkvæðarétt né kjörgengi. Aukafélagar hafa forgangsrétt til vinnu næst
- fullgildum félögum og njóta allra þeirra kjara og réttinda, sem samningar og gildandi kauptaxtar félagsins ákveða.
5.gr.
Sá sem óskar inngöngu í félagið í félagið skal senda skriflega inntökubeiðni til stjórnar félagsins, samþykki meirihluti mættra stjórnarmanna inntökubeiðnina, er umsækjandi orðinn löglegur félagi. Felli stjórnarfundur hins vegar inntökubeiðni, hefur umsækjandi rétt til að vísa inntökubeiðni sinni til félagsfundar. Synji félagsfundur um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til miðstjórnar ASÍ eða framkvæmdarstjórnar sérsambanda sem félagið er aðili að, eftir því sem við á, en úrskurður félagsfundar gildir þar til miðstjórn eða framkvæmdarstjórn hefur úrskurðað annað.
Hafi launþegi sem uppfyllir ákvæði 3.gr greitt félagsgjald til félagsins í 6 mámuði eða lengur öðlast hann rétt sem fullgildur félagi, enda hafi félagið þegar gert launþega svo óyggjandi sé, grein fyrir þessu ákvæði.
6.gr.
Úrsögn úr félaginu getur því aðeins átt sér stað að úrsegjandi sé skuldlaus við félagið. Úrsögn skal vera skrifleg og gerð grein fyrir ástæðu hennar. Hún skal afhent formanni félagsins eða skrifstofu ásamt félagsskírteini úrsegjanda. Ef viðkomandi hættir störfum á starfssviði félagsins telst hann að 6 mánuðum liðnum ekki lengur fullgildur félagsmaður enda sé hann skuldlaus við félagið.
Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu eða trúnaðarmannaráði, og þar til vinnustöðvuninni hefur verið aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur
niður vinnu vegna vinnudeilu.
RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA
RÉTTINDAMISSIR, BROTTREKSTUR.
2. KAFLI
7.gr. Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:
- a) Málfrelsi, tillögu og atkvæðaréttur á félagsfundum svo og kjörgengi.
- b) Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins, svo sem nánar er ákveðið í reglugerð sjóðanna.
- c) Réttur til að vinna eftir þein kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.
- d) Réttur á aðstoð félagsins vegna vanefna atvinnurekanda á samningum.
8.gr. Skyldur félagsmanna eru:
- a) Að hlýta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
- b) Að greiða félagsgjöld á réttum gjalddaga.
- c) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur 5 ár eða lengur í stjórn félagsins samfellt skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Hafi félagsmaður gegnt trúnaðarstarfi fyrir félagið í 10 ár eða lengur getur hann skorast undan endurkjöri.
- d) Að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í greininni og er skylt að tilkynna til félagsins ef þeir verða varir við brot í þessum efnum.
9.gr.
- a) Félagsgjöld eru ákveðin ( á aðalfundi ) og skulu þau að fullu greidd fyrir árslok sbr.20.gr.
- b) Félagsgjöld skulu innheimt sem ákveðin % af launum, en þó er heimilt að ákveða lágmarksgjald eða hámarksgjald.
- c) Félagar 60 ára og eldri sem ekki starfa á samningum félagsins en óska eftir því að vera áfram í félaginu skulu vera gjaldfríir.
- d) Félagar sem ekki starfa á samningum félagsins en óska eftir því að vera áfram í félaginu skulu greiða lágmarksgjald sem ASÍ ákveður.
- e) Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðaréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.
- f) Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagsskrá. Stjórn félagsins getur heimilað þeim sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stundað nám eftirgjöf á félagsgjaldi.
10.gr.
Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi, sem ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félaginu, með einföldum atkvæðameirihluta. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar. Hver sá maður er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað tjón eða gert því eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu. Úrskurði félagsfundur um áminningu, fésektir eða brottvísun félagsmanna má vísa til viðkomandi sérsambands og / eða Alþýðusambandsins, en úrskurður félagsfundar gildir þar til samvandið ákveður annað. Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu, á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.
STJÓRN OG TRÚNAÐARRÁÐ
3. KAFLI
11.gr.
Stjórn félagsins skipa 5 menn og 5 til vara:
Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi.
Varastjórn skal skipa jafn mörgum. Kjörtímabil stjórnar skal ver 2 ár.
12.gr.
Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda.
Stjórnin boðar til félagsfundar sbr. 17.gr. Hún ræður starfsmenn félagsins,
ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði.
Stjórnin ber sameiginlega ábyrð á eigum félagsins, skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er verðar sögu félagsins sé sem best varðveitt.
Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða.
13.gr.
Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því.
Formaður undirritar gerðabækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum.
Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.
14.gr.
Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðabækur félagsins ásamt formanni.
Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins.
15.gr.
Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðu og innheimtu félagsins og bókfærslu, eftir nánari fyrirmælum stjórnar.
16.gr.
Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Trúnaðarmannaráð hefur vald til að taka ákvörðum um hvenær skuli hefja vinnustöðvanir og hvenær þeim skuli aflétt.
Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins og 6 fullgildir félagsmenn sem kosnir eru í ráðið eftir sömu reglum og til sama tíma og stjórn. 6 varamenn skulu kosnir í trúnaðarmannaráðið um leið og aðalmenn eru kosnir.
Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarmannaráðs og ritaði félagsins ritari þess. Formaður kveður trúnaðarmannaráð til fundar með þeim hætti er hann telur heppilegast. Skylt er formanni að boða til
trúnaðarmannaráðsfundar ef þriðjungur trúnaðarmannaráðs óskar þess og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarmannaráðsfundur er löglegur er meirihluti ráðsmanna mætir.
Ákvarðanir um að hefja verkfall eða aflétta því eru löglegar og bindandi fyrir félagið og félagsmenn þess, ef þær hafa verið samþykktar með a.m.k. 3/4 hlutum greiddra atkvæða á lögmættum trúnaðarmannaráðsfundi. Formaður
getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarmannaráð stjórninni til aðstoðar, þegar ýmis önnur félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök að ná saman félagsfundi, og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur
meirihluti fundar.
FUNDIR OG STJÓRNARKJÖR
4. KAFLI
17.gr.
Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst 1/10 hluti félagsmanna óski þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja sólahrings fyrirvara
með uppfestum auglýsingum og í dagblöðum. Þó má í sambandi við vinnudeilur og verkafallsboðanir boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmættur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstaka félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.
18.gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok desember ár hvert.
Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með 2 daga fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál.
- Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
- Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
- Kosning stjórnar, varastjórnar og trúnaðarmannaráðs enda fari kosning ekki fram með allherjaratkvæðagreiðslu.
- Kosning 2 skoðunarmanna og 1 til vara.
- Önnur mál.
19.gr.
Heimilt er að viðhafa allherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og trúnaðarmannaráðs og skal um tillögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi. Annars skal kjósa stjórn og varastjórn á aðalfundi. Kjósa skal sérstaklega formann, varaformann, ritara og gjaldkera, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
FJÁRMÁL
5. KAFLI
20.gr.
Aðalfundur skal ákveða upphæð og greiðslumáta félagsgjalda. Reglugerð ASÍ ákveður þó lágmarksfélagsgjald verkalýðsfélags hverju sinni, sbr.41.gr. laga ASÍ.
21.gr.
Af tekjum félagssins skal greiða öll útgjöld þess (skatt til viðkomandi landsambands), skatt til ASÍ og annan kostnað, er stafar frá samþykktum félagsfundar eða stjórnar. Við meiriháttar ráðstafanir á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar.
22.gr.
Tveir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá . Skoðendur eru kosnir á aðalfundi. Auk athugunnar hinna félagskjörnu skoðenda er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsár.
23.gr. Sjóðir félagsins skulu vera:
Félagssjóður, styrktar og sjúkrasjóður, vinnudeilusjóður, orlofssjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að vera. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta á aðalfundi.
Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig skuli stjórnað. Félagssjóður greiðir allan kostnað
af starfsemi félagsins.
Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum, í sparisjóðum og í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign. Tekjur félagsins skiptist milli sjóða samkvæmt ákvæðum í reglugerð þeirra.
LAGABREYTINGAR.
6. KAFLI
24.GR.
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í
fundarboði. Til þess að breytingin nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. Breytingar á lögum koma fyrst til framkvæmda er stjórn hlutaðeigandi landsambands og miðstjórn ASÍ hefur staðfest þær.
FÉLAGSSLIT.
7. KAFLI
25.gr.
Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allherjaratkvæðagreiðslu. Verði sammþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. fær það félag þá umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins. Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.
Lög félagsins voru þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 28. desember 1993.
Formaður Ritari
Sævar Gunnarson Valur Guðmundsson
Reglugerð styrktar og sjúkrasjóðs Sjómanna og
vélstjórafélags Grindavíkur
1.gr.
Sjóðurinn heitir styrktar og sjúkrasjóður Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur.
2.gr. Markmið sjóðsins eru:
- Að styrkja félagsmenn Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur, er missa atvinnutekjur vegna sjúkdóma eða slyss með því að greiða þeim dagpeninga í slysa og sjúkdómstilfellum, svo og að styrkja ekkjur félagsmanna.
- Að greiða útfararkostnað eftir þeim skilyrðum, sem sett eru í reglugerð þessari.
- Að heimila veitingu láns til félagsmanna, sem ætla að stunda nám í Stýrimanna og Vélstjóraskóla, enda setji lánatakendur fullkomna tryggingu að dómi sjóðsstjórnar.
- Að heimila fjárstyrk til Heimilis aldraðra í Grindavík.
3.gr.
Stjórn sjóðsins skipa 3 menn, kosnir á aðalfundi í Sjómanna og vélstjórafélagi Grindavíkur og 2 menn til vara. Endurskoðendur sjóðsins skulu vera þeir sömu og félagssjóðs.
4.gr. Tekjur sjóðsins eru:
- Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
- Vaxtatekjur.
- Gjafir, framlögg og styrkir.
- Aðrar tekjur, sem aðalfundur kann að ákveða hverju sinni.
5.gr.
Rétt til styrks úr sjóðnum eiga þeir fullgildir félagsmenn samkvæmt félagslögum Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur.
6.gr.
Allar umsóknir skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð er sjóðstjórn lætur umsækjendum í té. Skylt er umsækjanda að leggja fram læknisvottorð með umsókn sinni, er tilgreina þann dag, er slysið eða veikindin bar að höndum. Þá er bótaþega skylt að leggja fram læknisvottorð, er tilgreina þann dag er hann varð aftur vinnufær. Heimilt er stjórn sjóðsins, að krefjast þess, að umsækjandi um dagpeninga leggji fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins.
7. gr. Um greiðslur úr sjóðnum gilda eftirfarandi reglur:
- Dagpeningar greiðast frá þeim tíma að samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur frá atvinnurekenda í allt að 120 daga, helga daga jafnt sem virka daga.
- Við andlát sjóðfélaga greiðir sjóðurinn dánarbúinu sem svarar greiðslu eins bótatímabils (120 daga) upp í útfararkostnað. Í einstaka tilvika er sjóðstjórn heimilt að lengja bótatímabil A og B liðar 7.gr., ef hún telur brýna nauðsyn til þess, og fjárhagur sjóðsins leyfir það, í allt að 120 daga til viðbótar.
- Vegna langvarandi veikinda maka eða barna sjóðsfélaga greiðast bætur í allt að 30 daga, enda skerðast launatekjur sjóðsfélaga vegna þeirra.
- Heimilt er sjóðstjórn að greiða hluta dagpeninga, ef sjóðsfélagi getur ekki stundað fulla atvinnu vegna sjúkdóms eða slyss.
- Dagpeningar greiðast ekki, þegar um varanlega örorku eða ellihrumleika er að ræða, en heimilt er að verja allt að 5% af iðgjaldatekjum sjóðsins næstliðins árs til úthlutunar í desembermánuði til styrktar ekkjum látinna félagsmanna og þeirra félagsmanna, sem ekki eiga rétt til dagpeninga, vegna örorku eða ellihrumleika.
- Upphæð dagpeninga skal verð sama upphæð og dagpeningar sjúkrasamlags eru hverju sinni og fyrir skylduómaga allt að 4, sem hinn veiki eða slasaði hefur á framfæri sínu.
8.gr.
Eftir að greiðslum dagpeninga úr sjúkrasjóði lýkur öðlast sjóðfélagi ekki rétt á greiðslum að nýju, fyrr en hann hefur hafið störf á nýjan leik og 6 mánuðir eru liðnir frá því hann hlaut greiðslur úr sjóðnum.
9.gr.
Dagpeningar greiðast vikulega samkvæmt ákvæðum, sem sett eru í reglugerð þessari.
10.gr.
Greiðsla dagpeninga fyrnist, sé hennar ekki vitjað innan 6 mánuða frá því að bótaréttur skapaðist.
11.gr.
Þegar farsóttir geysa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Sjóðstjórn getur einnig ákveðið að lækka upphæð dagpeninga um stundarsakir, en þó ekki yfir skemmri tíma en 6 mánuði, ef
afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
12.gr.
Veiti stjórn sjóðsins lán, skulu vextir lánsins vera þeir sömu og Seðlabanki íslands ákveður af skuldabréfum á hverjum tíma.
13.gr.
Allar ákvarðanir um veitingu styrkja eða lána úr sjóðnum skulu teknar af sjóðstjórn, og komi upp ágreiningur, ræður meirihluti hennar.
14.gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða gjaldkera til varðveislu sjóðsins, er jafnframt sér um innheimtu útlána og annað varðandi sjóðinn, eftir nánari ákvörðun sjóðsstjórnar. Allan beinan kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofureksturs skal um sinn ákveða með samkomulagi milli sjóðstjórnar og stjónar Sjómanna og vélstjórnarfélags Grindavíkur, þó eigi síðar en í desember ár hvert.
15.gr.
Stjórn félagsins annast vörslu hans og ávöxtun. Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með kaupum á verðtryggðum ríkisskuldabréfum, skuldabréfum með ábyrgð ríkissjóðs, í bönkum og sparisjóðum, í í skuldabréfum tryggðum með
fasteignaveði. Ávallt skal þess gætt, að ráðstöfun á fé sjóðsins fari ekki í bága við tilgang hans og verkefni.
16.gr.
Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Geta skal þess i fundarboði, ef stjórn sjóðsins hyggst leggja breytingar fyrir fundinn.
Þannig samþykkt á aðalfundi
Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur
27. desember 1985.