útgerðir geri rétt upp við sjómenn. Hlutverk Verðlagsstofu er nánar rakið í 1. gr. laganna. Þar kemur fram að stofnunin skuli fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að því að það sé rétt og eðlilegt. Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna skal Verðlagsstofa og Úrskurðarnefnd sjómanna og
útvegsmanna stuðla að því að markmið þeirra samninga nái fram að ganga, sbr. 2. mgr. 1. gr.
Til að framfylgja því eftirliti sem Verðlagsstofa hefur með höndum er sú kvöð m.a. lögð á útgerð skips að senda án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru á milli útgerðar og áhafnar, sbr. 4. gr. laganna. Eftirlitshlutverk Verðlagsstofu er að meginstefnu þríþætt. Stofnuninni er í fyrsta lagi skylt að afla ítarlegra gagna um fiskverð og skal hún reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Í annan stað getur stofnunin tekið mál upp að eigin frumkvæði, hvort sem er eftir ábendingum eða eftir eigin skoðun. Loks skal stofnunin gera svokallaðar úrtakskannanir. Til að fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafna sé lagt til grundvallar söluverðmæti afla getur stofnunin annað hvort beitt úrtakskönnun eða skoðað einstakt mál fyrir sig.
Við upplýsinga-og gagnaöflun skal Verðlagsstofa gæta meðalhófs og gæta að því að kröfur um upplýsingar og gögn séu í samræmi við tilefni. Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa krafið sjómenn, útgerðir,
kaupendur afla, flutningsaðila fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar, sbr. 5. gr. Starfsmenn Verðlagsstofu og fulltrúar í úrskurðarnefnd eru bundnir þagnarskyldu um allt er varðar hagi tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 17. gr.
Telji Verðlagsstofa við athugun einstakra mála eða í úrtakskönnun, að misræmi sé milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem lagt er til grundvallar hlutaskipta og að ekki séu fram komnar fullnægjandi skýringar á því misræmi, tilkynnir hún útgerð og áhöfn um það með rökstuddu áliti. Fulltrúar hagsmunaaðila í úrskurðarnefnd hafa einnig aðgang að álitinu. Þar með er hlutverki Verðlagsstofu lokið. Það er í höndum útgerðar og áhafnar að ljúka málinu, sbr. 6. gr.
Verðlagsstofa skiptaverðs · Strandgötu 29 · 600 Akureyri · sími 461 4480 · fax 461 4483 ·
vefsíða: www.verdlagsstofa.is . netfang: verdlagsstofa@verdlagsstofa.is
1
Samkvæmt kjarasamningum útgerðarmanna og sjómanna skulu gerðir samningar um fiskverð milli útgerðar
og áhafnar hvers skips ef afli er seldur aðila skyldum útgerðinni. Þá getur áhöfn kallað eftir slíkum samningi
ef afli er seldur óskyldum aðila. Ef þessir samningar takast ekki má skjóta málinu til úrskurðarnefndar
sjómanna og útvegsmanna sem úrskurðar þá um fiskverð. Verðlagsstofa getur að eigin frumkvæði skotið
málum til úrskurðarnefndar ef hún telur fiskverð við uppgjör á aflahlut víkja í verulegum atriðum frá því
sem algengast er í sambærilegum tilvikum, sbr. 7. gr.. Aðdragandi að könnun Verðlagsstofu í einstöku máli
getur verið eftir ábendingu eða vísbendingu úr gögnum sem stofnunin hefur safnað. Aðalatriðið er að
áhöfn eða einstaklingar þurfa á engan hátt að vera bendlaðir við málið.
Verðlagsstofa leggur ríka áherslu á að fylgjast með því að útgerðir fiskiskipa geri upp við áhafnir í samræmi
við fiskverðssamninga sem þær hafa gert og sent stofnuninni. Verðlagsstofa staðfestir ekki
fiskverðssamninga gagnvart Fiskistofu ef að athugun hennar hefur leitt í ljós að ekki hafi verið gert upp við
áhöfn í samræmi við samninga nema uppgjörið hafi verið leiðrétt. Slík staðfesting Verðlagsstofu er forsenda
þess að aflamark verði flutt til fiskiskips, sbr. 3.mgr. 15 gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
Láti útgerð Verðlagsstofu ekki í té upplýsingar eða gögn sem stofnunin hefur krafist til að hafa eftirlit með
að réttilega sé gert upp við skipverja beitir stofnunin sömu úrræðum, þ.e. staðfestir ekki fiskverðssamninga
gagnvart Fiskistofu.
Verðlagsstofa starfar í nánum tengslum við úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Úrskurðarnefnd
hefur það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa, sbr. 8.
gr. Í úrskurðarnefnd sitja níu menn skipaðir af ráðherra. Heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna tilnefna
fulltrúa í nefndina en ráðherra skipar formann án tilnefningar.
Verðlagsstofa getur skotið málum til úrskurðarnefndar. Sama á við um heildarsamtök sjómanna og
útvegsmanna hafi samningar milli útgerðar og áhafnar um fiskverð ekki tekist þegar afli er afhentur eða
seldur aðila sem telst skyldur útgerðinni. Útgerð og viðskiptaaðili hennar teljast skyld í þessu sambandi ef
þau eru í eigu eða rekstri sama aðila eða ef sami aðili á meiri hluta beggja fyrirtækja, svo sem meiri hluta
stofnfjár eða hlutafjár eða hefur með öðrum hætti raunveruleg yfirráð þeirra beggja. Heildarsamtök
sjómanna geta jafnframt skotið til nefndarinnar ákvörðun fiskverðs í viðskiptum útgerðar við aðila sem ekki
telst skyldur útgerðinni ef samningar um slíkt verð hafa ekki tekist innan fimm daga frá því að áhöfn skips
óskaði eftir slíkum samningum, sbr. 9. gr. Ákvörðun úrskurðarnefndar um fiskverð, hvort sem hún byggist
á samkomulegi eða úrskurði, er bindandi gagnvart útgerð og allri áhöfn skips á gildistíma hennar og er
óheimilt að semja um annað fiskverð við einstaklinga í áhöfn, sbr. 15. gr.
Verðlagsstofa skiptaverðs vonar að þessi stutta kynning á starfsemi stofnunarinnar og úrskurðarnefndar
hafi verið upplýsandi fyrir útgerð og áhöfn. Á næstu mánuðum mun Verðlagsstofa kynna nýja heimasíðu
stofnunarinnar þar sem fyrirhugað er að vera með ítarlegar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar,
úrskurði úrskurðarnefndar, réttindi og skyldur útgerðar og þar mun verða mögulegt er að koma á framfæri
ábendingum við stofnunina bæði nafnlausum og undir nafni.
Guðrún Arndís Jónsdóttir
Forstöðumaður
Verðlagsstofa skiptaverðs · Strandgötu 29 · 600 Akureyri · sími 461 4480 · fax 461 4483 ·