Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins staðfestir í samtali við Fiskifréttir, að ákveðið hafi verið að þekkjast boð um að senda áheyrnarfulltrúa á strandríkjafund um makrílkvóta næsta árs. Fundurinn verður í London í næstu viku. Þetta kemur fram á vefsíðunni skip.is í morgun.
Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandi gefst kostur á að sækja slíkan fund en í áratug hefur árangurslaust verið óskað eftir því að Ísland verði viðurkennt sem strandríki í þessum viðræðum og taki þar af leiðandi þátt í skiptingu makrílkvótans.
Stefán segir einnig í Fiskifréttum að óljóst sé á þessari stundu að hversu miklu leyti Ísland fái að taka þátt í hinum eiginlegu viðræðum. „Við verðum að minnsta kosti á staðnum til að ræða málin,“ segir hann í blaðinu.
Íslendingar hafa veitt yfir 110 þúsund tonn af makríl á þessu ári eða um 20% af áætluðum heildarmakrílafla í NA-Atlantshafi.