Hvaða inneignir almennings eru tryggðar

  1. Innistæður á hefðbundnum innlánsreikningum.  Með því er átt við innstæður viðskiptamanna sem tilkomnar eru vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Undir þetta falla bæði almennir og óbundnir reikningar en einnig reikningar sem bundnir eru í tíma.
  2. Verðbréf.  Með því er átt við verðbréf í eigu viðskiptamanns og sem eru í vörslu, umsjón eða umsýslu bankastofnunar og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti aðildarfyrirtækis og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.  Þetta á  t.d. við um skuldabréf á þriðja aðila sem viðskiptamaður hefur falið bankastofnun umsjón með og sem glatast í þeirra vörslum.
  3. Reiðufé. Með því er átt við innborgað reiðufé viðskiptamanns til bankastofnunar í tengslum við viðskipti með verðbréf t.d. fé sem greitt er bankastofnun til kaupa á verðbréfum en kaupin hafa ekki átt sér stað og peningarnir í vörslu stofnunarinnar. Það fé væri tryggt.

Samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (Tryggingasjóðslögin) er hámark bóta til hvers og eins viðskiptamanns 1.7 milljónir króna miðað við gengi evru þann 5.1 1999.  Miðað við gengi evru þann 7.10 2008 losar þessi ábyrgð 3.000.000.- króna. Þessi fjárhæð er fyrir hverja kennitölu vegna allra inneigna í sömu bankastofnun. Ef viðskiptamaður á innistæður í fleiri bankastofnunum gildir nýtt hámark þar.

Skv. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6.10 2008 mun ríkissjóður ábyrgjast allar innistæður skv. töluliðum 1-3, þrátt fyrir hámarksákvæði laganna.  Þessari yfirlýsingu hefur ekki verið fundinn staður í lögum.
Hvaða inneignir almennings eru ekki tryggðar

Allt annað en það sem að ofan greinir –  eignir í sjóðum.  Með því er átt við eignir eða hlutdeild viðskiptamanna í aðskiljanlegum sjóðum bankastofnana.  Þeir sjóðir eru settir upp m.v. mismunandi áhættu. Sumir sjóðanna dreifa eignum milli venjulegra bankareikninga, ríkisskuldabréfa, skuldabréfa fyrirtækja, hlutabréfa og svo framvegis.  Aðrir eru áhættusæknari og geta hafa fjárfest eingöngu í hlutabréfum. Þessir sjóðir eru sjálfstæðir og gerðir upp hver fyrir sig.  Eign hvers og eins viðskiptamanns sem lagt hefur þar inn fé ræðst af því hvert verðmæti þeirra eigna sem sjóðurinn hefur keypt er á hverjum tíma.

Flestir þessara sjóða eru þegar þetta er skrifað ( 7.10 2008 ) eru lokaðir.  Til þess liggja tvær meginástæður. Sú fyrri er sú, að lítill ef nokkur markaður er fyrir eignir þeirra ef selja þarf þær í snarheitum t.d. vegna kröfu viðskiptamanna um að hlutur þeirra verði greiddur út þegar í stað.  Við þær aðstæður fæst ekki „eðlilegt“ verð fyrir eignir sjóðanna og því nauðsynlegt staldra við. Sú síðari gæti verið skortur umsýsluaðilans á lausafé til útborgunar. Ætla verður að verðmæti margra eigna sem sjóðirnir hafa fjárfest í muni rýrna er fráleitt má ráð fyrir því að öll eignin sé glötuð nema um glæpsamlegt atferli af hálfu sjóðsins hafi verið að ræða.
Hvenær verða bætur greiddar, reyni á ábyrgð Tryggingasjóðs

Skv. reglugerð með Tryggingasjóðslögunum getur viðskiptamaður krafist greiðslu úr sjóðnum þegar:

  • Fjármálaeftirlitið gefur upp það álit sitt að bankastofnun geti ekki greitt út innistæður skv. töluliðum 1-3 hér að framan.
  • Bankastofnun er tekin til gjaldþrotaskipta.

Greiðsla skal fara fram innan 3 mánaða en viðskiptaráðherra getur framlengt þann frest um þrjá mánuði í senn en þó að hámarki upp í 12 mánuði.

Krafa viðskiptamanns miðast við eign viðskiptamanns í bankastofnun eins og hún er þann dag sem fjármálaeftirlitið gefur upp álit sitt skv. framanrituðu eða m.v. þann dag sem úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp eftir því hvor kemur upp fyrr.

Séreignasparnaður og séreignasjóðir

Forsætisráðherra gaf þá yfirlýsingu þann 6.10 2008, að séreignasparnaður landsmanna yrði varinn. Efni þessarar yfirlýsingar hefur ekki verið lögfest og því erfitt að átta sig á því við hvað nákvæmlega er átt við, því séreignasparnaður landsmanna er af ýmsum toga.

Margir séreignasjóðanna eru ávaxtaðir með eignum í hinum ýmsu sjóðum bankastofnana sem grein hefur verið gerð fyrir hér að ofan og falla ekki undir tryggingaákvæði Tryggingasjóðslaganna.

Sumt af séreignasparnaði landsmanna er hins vegar tryggður á sérstökum innlánsreikningum (lífeyrisbókum) og ljóst að sá sparnaður mun varinn af Tryggingasjóði og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eins og aðrar inneignir sem grein er gerð fyrir hér að ofan.  Í neyðarlögunum er að sérstakt finna ákvæði um að innistæður ýmissa séreignasjóða og lífeyrissjóða hjá banka eða sparisjóði séu tryggðar í Tryggingasjóði þrátt fyrir að vörsluaðili eða rekstrarfélag slíkra sjóða sé viðkomandi banki eða sparisjóður. Þetta bætir stöðu séreignasparnaðarins nokkuð

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00