Þetta eru ákaflega ánægjulegar niðurstöður sem vonandi gefa fyrirheit um að þorskstofninn sé að rétta úr kútnum.Hafrannsóknastofnunin sendi í morgun frá sér tilkynningu um niðurstöðu haustmælinga á stofnstærð botnfiska. Þar kemur fram að heildarvísitala þorsks er nú 10% hærri en hún hefur áður mælst í 12 ára sögu mælinganna.
Mælingarnar leiddu í ljós hátt hlutfall af stórum fiski. Í fréttatilkynningu stofnunarinnar segir orðrétt: „Hlutdeild 90 cm og stærri þorsks í vísitölunni var um 20%, sem er hæsta gildið frá upphafi. Hlutdeild 80 cm og stærri þorsks var um 35% og hefur ekki verið jafn há frá árinu 1996.“
Auk hefðbundinna stofnmælinga var rannsóknaskipið Árni Friðriksson við þorskrannsóknir í grænlenskri lögsögu. Ítrekaðar fregnir í haust af mikilli þorskgengd djúpt vestur af landinu hafa bent til þess að þorskur kynni að vera þar í ætisleit.
Í frétt á vefsíðu HB Granda fyrr í mánuðinum var rætt við Eirík Ragnarsson skipstjóra á Helgu Maríu AK. Hann sagði þorsk vera að finna í umtalsverðu magni á grálúðuslóðinni djúpt vestur af Íslandi, á 300 til 350 faðma dýpi. „Þessi fiskur er í ætisleit og maður vonar bara að hann sé ekki á leiðinni til Grænlands,“ sagði skipstjórinn.
Í tilkynningunni frá Hafrannsóknastofnuninni í morgun segir m.a. að „fæðurannsóknir hafi sýnt að fiskurinn í grænlenskri lögsögu var að meðaltali með um þrisvar sinnum meiri fæðu í maga en þorskur í íslenskri lögsögu.“