Hæstiréttur staðfestir rétt sjómanna til fullra launa í slysa- og veikindaforföllum

 

Hæstiréttur staðfesti nýverið dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli þar sem deilt var um rétt skipverja á frystitogara til veikindalauna, vegna meiðsla er hann hlaut um borð í skipinu.

 

Fyrir hönd skipverjans var gerð krafa um full óskert laun í þeim tveimur veiðiferðum sem farnar voru meðan á óvinnufærni hans stóð, sem var í rúma tvo mánuði. Útgerðin vildi hins vegar ekki greiða skipverjanum forfallalaun fyrir fyrri veiðiferðina sem farin var á tímabilinu, einvörðungu þá síðari, þar sem skipverjinn hefði átt að vera í fríi fyrri veiðiferðina, hefði hann ekki veikst. Taldi útgerðin að við uppgjör veikinda- og slysalauna ætti að miða við róðrafyrirkomulag sem almennt gilti um borð í skipinu, sem var tvær veiðiferðar á sjó og ein í frí. Hafði útgerðin um árabil haft þennan háttinn á við uppgjör slysa- og veikindalauna við skipverja sinna.

 

Í dómi Hæstaréttar sagði að skýra bæri 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem fjallar um veikinda- og slysalaun skipverja, á þann veg að skipverji sem forfallaðist við vinnu sína héldi fullum launum þótt hann hefði átt að fara í launalaust frí á veikindatímabilinu. Var meðal annars til skýringa vísað til frumvarps til eldri sjómannalaga sem og dómafordæma um beitingu þeirrar reglu. Var því fallist á kröfur skipverjans og útgerðinni gert að greiða honum umkrafinn laun, auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

 

Með dómnum er bundinn endir á langvinnan ágreining samtaka sjómanna og útgerðarmanna varðandi uppgjör á slysa- og veikindalaunum skipverja sem starfa samkvæmt skiptimannakerfi. Vitað er til þes að margar útgerðir hafa gert upp forfallakaup til samræmis við það skiptimannakerfi sem gilti um borð í skipum sínum. Eru skipverjar sem forfallast hafa frá vinnuog hafa ekki fengið greidd full og óskert laun, í allt að tvo mánuði, meðan á óvinnufærni þeirra stóð, hvattir til að kanna sína réttarstöðu.

 

Jónas Þór Jónasson, hæstaréttarlögmaður, Lögmenn Jónas & Jónas Þór sf., lögmaður SVG, flutti málið fyrir hönd skipverjans

 

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00