Efni: Umsögn um frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins, 256. mál

Í öðru lagi gerir Sjómannasamband Íslands athugasemd við a lið 14. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að tekið verði upp fjölþrepa skattkerfi. Nánari umsögn um framangreindar tvær greinar frumvarpsins fer hér á eftir:

 

Um 14. gr. a lið.

Sjómannasamband Íslands barðist lengi fyrir því að staðgreiðslukerfi skatta yrði tekið upp. Tekjur sjómanna geta verið afar sveiflukenndar milli ára og fyrir upptöku staðgreiðslunnar lentu sjómenn oft í þeim aðstæðum að eiga ekki fyrir sköttunum þegar niðursveifla varð í tekjum. Með tilkomu staðgreiðslukerfisins hvarf þetta vandamál. Nú er ætlunin að fjölga skattþrepum sem mun leiða til þess að eftiráleiðréttingar við álagningu opinberra gjalda munu aukast. Sjómannasamband Íslands hefur fullan skilning á því að miðað við efnahagsaðstæður í kjölfar bankahrunsins þurfi að hækka skatta. Hins vegar er það skoðun sambandsins að sama árangri, bæði hvað varðar tekjuöflun fyrir ríkissjóð og til að íþyngja ekki þeim tekjulægstu, hefði mátt ná án fjölgunar skattþrepa. Með fjölgun skattþrepa er einfaldlega verið að eyðileggja staðgreiðslukerfið að mati Sjómannasambands Íslands. Fyrir sjómenn og aðra launamenn sem búa við tekjusveiflur milli ára er það slæmt að staðgreiðslukerfi skatta sé eyðilagt með fjölgun skattþrepa.

 

Um 25. gr.

Sjómannasamband Íslands mótmælir því harðlega að ráðist sé sérstaklega að kjörum sjómanna með því að afnema sjómannaafsláttinn eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sjómannaafslátturinn er hluti af kjörum sjómanna og hefur verið það í rúma hálfa öld. Gangi ákvæði frumvarpsins eftir þurfa sjómenn bæði að taka á sig skattahækkanir eins og aðrir launamenn og að sæta kjaraskerðingu vegna skerðingar og síðan afnáms sjómannaafsláttarins. Er þetta gert í skjóli þess að sjómannaafslátturinn valdi mismunun gagnvart öðrum stéttum. Ekki er hins vegar hróflað við ríkistryggðum lífeyrissjóði opinberra starfsmanna né skattfrjálsum dagpeningum og ökutækjastyrkjum. Í athugasemdum með frumvarpinu er því m.a. haldið fram að útgerðin leggi sjómönnum til hlífðarfatnað, sem ekki hafi verið þegar sjómannaafslátturinn var tekinn upp. Þetta er rangt. Sjómenn þurfa sjálfir að kaupa sinn hlífðarfatnað. Á móti þeim kostnaði greiðir útgerðin hlífðarfatapeninga, en þær greiðslur eru í skattkerfinu meðhöndlaðar sem laun og skattlagðar sem slíkar. Sama á við um fæði sjómanna. Sjómenn greiða fæði sitt sjálfir. Fæðispeningar sem útgerðin greiðir sjómönnum flokkast sem laun og eru skattlagðir sem slíkir. Dagpeningar sem greiddir eru til annarra stétta vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda eru ekki skattlagðir. Ef gæta ætti jafnræðis ættu sjómenn að fá kr. 7.950 á dag frádregnar frá tekjum vegna fæðiskostnaðar áður en skattur er reiknaður. Jafnframt væri réttlátt að þeir fengju frádrátt frá tekjum vegna kostnaðar við hlífðarföt sem nauðsynleg eru vegna starfsins. Full rök eru því fyrir sérstökum skattaafslætti til sjómanna. Í athugasemdum með frumvarpinu er einnig vitnað í tekjuþróun hjá sjómönnum í samanburði við tekjuþróun hjá öðrum launamönnum. Viðmiðið er árið 2006. Ekki er minnst á það einu orði að fyrir árið 2006 hækkuðu laun annarra launamanna meira en tekjur sjómanna m.a. vegna sterkrar krónu. Þannig er í athugasemdum með frumvarpinu vísvitandi verið að villa um fyrir almenningi til að réttlæta að sérstaklega sé ráðist að kjörum sjómanna. Sjómannasamband Íslands fordæmir þessi vinnubrögð og hafnar því alfarið að ráðist verði að sjómannaafslættinum eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sjómannasamband Íslands skorar því á Alþingi að fella 25. greinina brott úr frumvarpinu.

 

 

f.h. Sjómannasambands Íslands,

 

 

__________________________

Hólmgeir Jónsson

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00