Ályktanir aðalfunda Sjómannafélags Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur

Ályktanir aðalfunda Sjómannafélags Íslands og

Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur

 

 

Aðalfundir Sjómannafélags Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur árið 2019 krefjast þess að fram fari ítarleg rannsókn á verðmyndun makríls á árunum 2012-2018 í framhaldi af athugun Verðlagsstofu skiptaverðs á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum útgerða sem reka landvinnslu og bræðslu. Samkvæmt athugun Verðlagstofu skiptaverðs er verðlag miklu mun hærra í Noregi þar sem það miðast við heimsmarkaðverð en á Íslandi. Hráefnisverð makríls á árunum 2012-2018 var að meðaltali 227% hærra í Noregi en á Íslandi.

 

Sjómenn krefjast þess að Alþingi skipi óháða faglega rannsóknarnefnd á verðmyndun sjávarfangs almennt, starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja og sölufyrirtækja þeirra hér á landi sem erlendis. Nefndin vinni fyrir opnum tjöldum og hafi heimild til þess að kalla fyrir sig vitni þannig að fólkið í landinu geti fylgst með störfum nefndarinnar á öllum stigum.

 

Árið 2018 bættu útgerðarmenn í og hráefnisverð á makríl var nærfellt 300% hærra í Noregi en á Íslandi. Tekjur útgerðarfyrirtækja voru um 25 milljarðar króna en miðað við heimsmarkaðsverð gætu tekjur útgerða hafa verið allt að 50 milljörðum króna hærri. Rannsakað verði hvort útgerðarmenn séu kjánar sem leiti ekki eftir besta verði og verði árlega af tug milljarða króna tekjum af makríl og þannig ekki treystandi fyrir auðlind þjóðarinnar. Þeir státa af besta sjávarútvegi í heimi en hvernig má vera að þeir fái ekki besta verð í heimi? Þeir eru með eigin sölufélög erlendis. Er tilgangurinn að lækka laun sjómanna og komast hjá skattgreiðslum?

 

Rannsakað verði hvort sjómenn hafi verið hlunnfarnir um tugi milljarða króna fram hjá skiptum árið 2018 og hundruð milljarða króna á áratugnum. Rannsakað verði hvort tugir milljarða króna hafi endað í vasa útgerðarmanna árið 2018 við það eitt að makrílnum var landað á Íslandi en ekki Noregi. Rannsakað verði hvort tugum jafnvel hundruð milljörðum króna hafi verið komið í erlend skattaskjól á áratugnum. Rannsakað verði hvar fjármunirnir séu niðurkomnir. Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur spurt hvort útgerðin hafi gerst sek um þjófnað gagnvart sjómönnum, skattsvik, peningaþvætti og landráð.

 

Þjóðin hefur orðið vitni að græðgi Samherja í Namibíu. Það mál er til rannsóknar í Namibíu. Norskur ríkisbanki hefur komið fjármunum Samherja í skattaskjól. Það mál er til rannsóknar í Noregi. Ekkert heyrist af rannsókn á Íslandi. Hver er staða mála? Sjómenn krefjast svara.

 

Fregnir berast að eigandi Brims leiti nú að erlendu fjármagni inn í fyrirtækið. Sú fyrirætlan er þjóðhættuleg og gengur gegn lögum. Grunsemdir vakna að Brim beiti lagaklækjum til þess að koma fiskimiðum þjóðarinnar í erlendar hendur og séu lítt dulbúin aðför að íslenskum sjómönnum. Sjómenn hafna áformum um erlent fjármagn í sjávarútveg.

 

Ályktun

 

Þarfagreining og áhættumat Landhelgisgæslunnar gerir ráð fyrir að ætíð séu tvö varðskip við eftirlit á sjó hverju sinni með sambærilega getu og varðskipið Þór. Stjórnvöld gera ekkert með þessa þarfagreiningu og áhættumat. Þegar óveðrið gekk  yfir á dögunum var ekkert skip við eftirlit þegar Þór sá Dalvíkingum fyrir rafmagni.

Landhelgisgæslan gerir út tvö varðskip – Þór og Tý – með eina áhöfn á hvoru skipi. Annað varðskipið er jafnan á sjó meðan hitt liggur í höfn. Bæta þarf við áhöfnum til þess að bæði varðskipin séu samtímis á sjó. Slys gera ekki boð á undan sér og við blasir að með stórauknum siglingum stórskipa í íslenskri lögsögu þá þarf viðbúnaður að vera í lagi svo þjóðin verði sér ekki til skammar.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00