Ályktanir 26. þings SSÍ

Á 26. þingi Sjómannasambands Íslands var samþykkt ályktun um kjara- og atvinnumál og ályktun um öryggis- og tryggingamál.

 

Ályktun um kjara- og atvinnumál.
Samþykkt á 26. þingi SSÍ 4. – 5. desember 2008.

Á þingum Sjómannasambands Íslands hefur marg oft verið bent á nauðsyn hvalveiða í atvinnuskyni m.a. til að viðhalda eðlilegu jafnvægi í lífríki hafsins. 26. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því sérstaklega að nú hefur verið opnað fyrir innflutning og sölu á hvalkjöti til Japans. Í þeim efnahagsþrengingum sem nú ríkja er nauðsynlegt að nýta öll atvinnutækifæri sem tiltæk eru, þar með talið að veiða hvali. Með opnun markaða fyrir hvalkjöt er ekkert því til fyrirstöðu að nýta þessa auðlind á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Þingið skorar á stjórnvöld að heimila bæði veiðar á Hrefnu og stórhvölum á næsta ári. Þingið ítrekar fyrri skoðun um að hvalveiðar í atvinnuskyni og starfsemi tengd hvalaskoðunarferðum með ferðamenn geti vel farið saman.

26. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að frjálst framsal aflamarks verði afnumið og samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu.  Eins og staðan er í dag getur kaupandi og seljandi afla verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið.  Slíkur viðskiptamáti hlýtur að brjóta í bága við lög um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti.  Eðlilegt hlýtur að teljast að allir fiskkaupendur hafi sömu möguleika á að kaupa þann fisk sem leyfilegt er að veiða úr takmarkaðri auðlind.  Fyrsta skrefið til að koma á eðlilegum viðskiptaháttum með fisk er að aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega sem leiðir til þess að allur afli verði seldur á fiskmarkaði.

26. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að afnema nú þegar það veiðigjald sem sett var á íslenskan sjávarútveg fyrir nokkrum árum. Veiðigjaldið skerðir samkeppnishæfi sjávarútvegsins.  Ljóst er að auknar álögur á sjávarútveginn bitna á endanum á launakjörum sjómanna.

26. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld setji meira fjármagn til Hafrannsóknastofnunar, þannig að hún geti sinnt hlutverki sínu og haldið skipaflota stofnunarinnar á sjó með eðlilegum hætti. Einnig hvetur þingið til að fleiri vísindamenn ótengdir Hafró verði fengnir að fiskveiðiráðgjöfinni.

26. þing Sjómannasambands Íslands skorar á sjávarútvegsráðherra  að uppræta það ójafnræði sem er innan sjávarútvegsins. Er hér meðal annars átt við línuívilnun

26. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því umhverfismerki sem kynnt hefur verið fyrir íslenskar sjávarafurðir og á að sýna svo ekki verður um villst að Íslendingar stunda sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar. Þingið vonar að merkið fái sem fyrst vottun ábyrgra vottunaraðila þannig að það nýtist sem best við markaðssetningu og sölu á íslensku sjávarfangi þjóðinni til heilla.

26. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Jafnframt hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að samþykkja að greiða gjald til Sjómenntar.

Í kjölfar hruns íslensku bankanna og hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem nú geysar hefur krafan um að Ísland gerist aðili að ESB orðið sífellt háværari. Í þeirri kröfu virðist megin þunginn vera vegna stöðu krónunnar og kröfu um að skipt verði um gjaldmiðil. Vissulega þarf að skoða kosti þess og galla fyrir íslenska þjóð að ganga í ESB. Sjávarútvegur er einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar og hlýtur hann því að vega þungt þegar kostir og gallar aðildar að ESB eru skoðaðir. Sjávarútvegsstefna ESB miðast við að sjávarútvegurinn sé jaðaratvinnuvegur en ekki einn aðal atvinnuvegur heillar þjóðar eins og við á um íslenskan sjávarútveg. Verði farið í viðræður um aðild að ESB gerir 26. þing Sjómannasambands Íslands þá kröfu að skilyrt verði að Ísland hafi fullt forræði yfir auðlindunum og fullt samningsumboð varðandi deilistofna. Verði þessi skilyrði ekki hluti af samningskröfu Íslands hafnar 26. þing Sjómannasambands Íslands aðildarviðræðum.

Samþykkt samhljóða.

 

Ályktun um öryggis- og tryggingamál.
Samþykkt á 26. þingi SSÍ 4. – 5. desember 2008.

26. þing Sjómannasambands Íslands hafnar alfarið aukinni þátttöku sjómanna í kostnaði við slysatryggingar. Í gerðardómi skv. lögum nr. 34/2001um kjaramál fiskimanna og fleira, var slysatryggingu sjómanna á fiskiskipum breytt á þann veg að bætur greiðast nú á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Á móti verulega bættri slysatryggingu greiða sjómenn sjálfir hluta af kostnaðaraukanum vegna þessa. Í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir krefst LÍÚ þess að hlutur sjómanna í slysatryggingunni verði aukinn. Rökin eru þau að iðgjald tryggingarinnar hafi hækkað verulega þar sem bætur séu hærri en upphaflega var gert ráð fyrir Þingið bendir á að leiðin til að lækka þennan kostnað er að fækka slysum. Það má m.a. gera með því að þess sé gætt að skip séu ekki undirmönnuð, þannig að það verði ekki regla heldur undantekning að sjómenn standi frívaktir og hvíldartími þeirra með því þver brotinn. Á þann hátt dregur úr kostnaði vegna slysa og iðgjald lækkar. 26. þing Sjómannasambands Íslands skorar á alla sem vinna að öryggismálum sjómanna að samhæfa krafta sína þannig að verulegur árangur náist sem fyrst í að fækka slysum á sjó. Eitt af því sem þarf að gera er að samræma skráningu slysa á sjó.

26. þing Sjómannasambands Íslands hvetur skipstjórnarmenn og útgerðir til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð í skipum sínum eins og lög mæla fyrir um. Talið er að aðeins séu haldnar lögbundnar öryggisæfingar um borð í 15% skipa í íslenska fiskiskipaflotanum. Vegna þessa hlýtur það að vera nauðsynlegt að teknar verði stikkprufur um borð í skipum og skipverjar skikkaðir á æfingar mánaðarlega eins og lög kveða á um.

26. þing Sjómannasambands Íslands bindur miklar vonir við vinnu Verkefnastjórnar í öryggismálum sjómanna og væntir þess að framlag hennar verði liður í að fækka slysum til sjós.

26. þing Sjómannasambands Íslands fagnar því að frumvarp sé í burðarliðnum þar sem skylt verður að lögskrá skipverja á öll skip sem gerð eru út í atvinnuskyni. Þá verður skylt að lögskrá skipverja á smábátaflotann og þannig að fylgjast með því hverjir eru um borð og að réttindi og haffæri sé til staðar. Þingið hvetur samgönguráðherra til að leggja frumvarpið sem fyrst fyrir Alþingi og hvetur jafnframt alþingismenn til að samþykkja frumvarpið svo það verði sem fyrst að lögum. Þingið telur það mikla réttarbót fyrir smábátasjómenn að skylt verði að lögskrá á smábátana með sama hætti og á stærri skipin.

26. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðarmenn og Siglingastofnun til úrbóta á öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur þar um. Einnig að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa.

Samþykkt samhljóða.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00