Ekki náðist samkomulag um veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg á 27. ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC, sem lauk í London á föstudag. Ákveðið var að fresta viðræðum fram í febrúar og veiðar eru óheimilar til 1. apríl.
Á vefsíðu LÍÚ hafði áður verið greint frá ákvörðunum varðandi kolmunna, sem samþykktar voru á fundinum. Tillögur um kvóta á norsk-íslenskri síld, sem áður hafði verið greint frá, voru samþykktar á fundinum sem og tillaga um stjórn makrílveiða. Henni var mótmælt var af hálfu Íslands sem ekki hefur fengið að koma að samningaborði um stjórn þeirra veiða.
Á fundinum varð samkomulag um áframhaldandi lokanir á svæðum þar sem talið er að finnist viðkvæm vistkerfi, svo sem kórallar. Þetta er liður í starfi NEAFC að verndun viðkvæmra hafsvæða sem aukin áhersla hefur verið lögð á undanfarin ár. Þá var ákveðið að formenn sendinefnda kæmu saman í mars á næsta ári til að ræða frekari útfærslur við verndun viðkvæmra hafsvæða til framtíðar.
Finna má fréttatilkynningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins frá fundinum í heild sinni hér.