Þátturinn Auðlindin á RÚV, sem á sínum tíma fjallaði um sjávarúvegsmál, hefur göngu sína á ný á morgun, miðvikudaginn 12. nóvember. Þátturinn verður á samtengdum rásum ríkisútvarpsins alla virka daga kl. 18.15 í kjölfar styttri kvöldfréttatíma. Umsjónarmenn þáttarins verða þeir Karl Eskil Pálsson og Þórhallur Jósepsson.
Þórhallur segir í stuttu spjalli við vefsíðu LÍÚ, að endurvakin Auðlindin verði alhliða þáttur um íslenskt atvinnulíf en einskorðist ekki við sjávarútveg eins og áður. Sjávarútvegurinn verði þó fyrirferðarmikil. Hann segir ennfremur, að á fréttastofu RÚV hafi menn fundið fyrir því að hinir hefðbundnu atvinnuvegir hafi fallið í skuggann af fjármála- og verðbréfafréttum.
„ Áherslan er á að Auðlindin verður fréttaþáttur. Það þýðir að hvert atriði verður stutt og snarpt, sagt frá því sem til tíðinda getur talist og ekki dvalið lengi við hvert. Reynist nauðsynlegt að fjalla um eitthvað í lengra máli, leitum við á náðir annarra þátta hjá okkur eftir plássi, t.d. Morgunvaktarinnar, Síðdegisútvarpsins eða Spegilsins. Þar er yfirleitt rými fyrir ítarlega umfjöllun og skýringar,“ segir Þórhallur.