Fréttatilkynning – stjórnar S.V.G

27.3.2017
FRÉTTATILKYNNING

Líkt og félagsmenn þekkja hefur dráttur orðið á síðustu greiðslum til félagsmanna úr verkfallssjóði SVG vegna allsherjarverkfalls sjómanna sem lauk þann 19. febrúar sl. Eins og gefur að skilja gekk hratt á fjármuni verkfallssjóðs SVG í þessu lengsta sjómannaverkfall Íslandssögunnar. Þar sem verkfallið dróst á langinn varð verkfallssjóður SVG á endanum uppurinn og leitaði SVG því á náðir ASÍ með formlegri umsókn um greiðslu úr Vinnudeilusjóði ASÍ þann 24. janúar sl. Þess skal þó getið að á meðan verkfallinu stóð voru félagsmenn upplýstir um nákvæma stöðu sjóðsins og greiðslugetu á reglulegum félagsfundum félagsins.
Í kjölfar umsóknar SVG kom í ljós að ekki giltu neinar formlegar reglur um starfsemi og skyldur Vinnudeilusjóðs ASÍ og hóf skrifstofa ASÍ störf við að móta tillögur að reglum fyrir sjóðinn. Til að gera langa sögu stutta var SVG að lokum tilkynnt þann 16. mars sl. að ASÍ hefði neitað að verða við kröfu SVG um styrk úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Í afstöðu ASÍ kemur fram að sambandið sé hvorki tilbúið að afgreiða úr sjóðnum þá fjárhæð sem SVG óskaði eftir né að veita minni styrk úr sjóðnum. Afstaða ASÍ byggist alfarið á reglum um sjóðinn sem settar voru eftir að umsókn SVG var lögð fram.
Stjórn SVG mótmælir harðlega afgreiðslu og afstöðu ASÍ til umsóknar félagsins um styrk úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Í fyrsta lagi bendir stjórn SVG á að félagið hafi í hvívetna fullnægt öllum skyldum samkvæmt lögum og reglum ASÍ, þ.m.t. með greiðslu skatta skv. lögum ASÍ. Réttur félagsins til styrks úr Vinnudeilusjóði ASÍ í allsherjarverkfalli sjómanna ætti því að vera nokkuð afdráttarlaus. Í öðru lagi telur stjórn SVG að reglur um greiðslur úr Vinnudeilusjóði ASÍ, sem settar voru eftir að sótt var um greiðslu úr sjóðnum, hafi enga þýðingu varðandi umsókn félagsins enda ótækt að beita slíkum reglum og skilyrðum afturvirkt. Þá verður ekki betur séð en að ASÍ hafa mótað reglurnar alfarið út frá umsókn SVG með það í huga að hafna umsókninni. Í þriðja lagi telur stjórn SVG að afgreiðsla og afstaða ASÍ gangi þvert gegn ályktun miðstjórnar ASÍ um verkfall sjómanna sem birt var þann 11. janúar sl. en þá lýsti miðstjórn ASÍ yfir „fullum stuðningi við verkföll og kjarabaráttu sjómanna og vélstjóra við samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.“
Stjórn SVG er nú með til skoðunar að leita réttar síns vegna afgreiðslu ASÍ á umsókn um styrk úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Þá er áframhaldandi tilvera SVG í ASÍ og Sjómannasambandi Íslands sömuleiðis til endurskoðunar. Skv. upplýsingum í bréfi frá ASÍ dags. 16. mars sl. samþykkti miðstjórn ASÍ einróma að hafna kröfu SVG um styrk úr sjóðnum og því ljóst að enginn hefur talað máli SVG á vettvangi miðstjórnar ASÍ við afgreiðslu umsóknarinnar.
Afstaða ASÍ til umsóknar SVG úr Vinnudeilusjóði ASÍ gerir það að verkum að frekari dráttur verður óhjákvæmilega á lokagreiðslum til félagsmanna vegna sjómannaverkfallsins.

Stjórnin

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00