Sjómannadagsblað Grindavíkur 2010 er komið út og hefur björgunarsveitarfólk frá Slysavarnadeildinni Þorbjörn boðið það til sölu líkt og undanfarin ár sem fjáröflun fyrir sitt starf. Blaðið er einnig í sölu á nokkrum útvöldum stöðum, verslunum, Sjómannastofunni Vör og Saltfisksetrinu fyrir þá sem að misst hafa af heimasölunni. Þá er blaðið í fyrsta skiptið í sölu í verslunum Pennans-Eymundsson um land allt og hjá Olís á Suðurnesjum.
Í blaðinu er viðtal við Þórð Pálmason skipstjóra á Jóhönnu Gísladóttur ÍS 7, flaggskipi Vísis hf., sem Kristinn Benediktsson, ritstjóri, tók en hann fór með í sjóferð í vetur. Þórður hefur frá mörgu skemmtilegu að segja en hann hefur verið til sjós í um fimmtíu ár þar af 25 ár á Grindavíkurbátum, Höfrungi II. GK, Hrungni GK og Jóhönnu Gísladóttur ÍS.
Á sínum stað í blaðinu eru myndir og frásögn frá síðasta sjómannadegi og heiðrun sjómanna. Þá er myndasýning frá Ólafi Rúnari Þorvaldssyni, aldamótaræða Einars G. Einarssyni í Garðhúsum en handritið kom nýlega fram í dagsljósið. Haraldur Hjálmarsson á Oddgeiri sýnir okkur frábærar myndir úr myndasafni sínu í Ljósmyndagalleríi blaðsins. Þá er farið í grásleppuróður með Hafsteini Sæmundssyni, 74 ára trillukarli, og Heimi syni hans. Viðtal við Sigurð Þorláksson, stýrimann frá Vík, og grein Sveins Torfa frá humarróðri með Gvendi Karls og skoðað inn á bátasíðu Emils Páls ritstjóra epj.is auk fleira efnis en blaðið er 100 síður smekkfullt af frábæru efni.
Blaðið kom fyrst út 1989 og í vetur voru öll eldri tölublöð gerð aðgengileg á heimasíðu Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur sem gefur blöðin út. Ritstjóri blaðsins er Kristinn Benediktsson en hönnun og prentvinnan var í höndum Stapaprents í Reykjanesbæ.