Innan ESB hefðum við hent milljarðaverðmætum í sjóinn

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir gagnrýni fulltrúa Evrópusambandsins á makrílveiðar Íslendinga í eigin lögsögu beinlínis hjákátlega. Gagnrýnin kom fram á fundi strandríkja í London í síðustu viku, þar sem heildarmakrílkvótinn í NA-Atlantshafi á næsta ári var ákveðinn 625.000 tonn að sögn norska blaðsins Fiskaren.

„Evrópusambandið skikkar sjómenn sína til að henda fiski í sjóinn,“ segir Friðrik ennfremur. „Við veiddum 112 þúsund tonn af makríl í íslensku lögsögunni með þeim 130 þúsund tonnum sem við veiddum af síld. Ef við værum í ESB færi sambandið með stjórn veiða úr deilistofnum. Þá hefðum við staðið frammi fyrir því að sleppa því að veiða síldina – eða veiða hana og henda milljarðaverðmætum af makríl fyrir borð.“ Áætla má að heildarverðmæti makrílaflans sé ríflega sex milljarðar króna.

Makrílkvóti næsta árs, sem ákveðinn var á fundinum í London, er 30% hærri en heimilt var að veiða á yfirstandandi ári. Evrópusambandið fær 417.000 tonn í sinn hlut, Norðmenn 180.000 tonn og Færeyingar 28.000 tonn. Áætlaður makrílafli á þessu ári er um 600.000 tonn.

Ósk Íslands til margra ára um að fá að koma að samningaborðinu þegar makrílkvótanum er skipt hefur ávallt verið synjað.

Sími 426 8400 | Fax 426 8405 | svg@svg.is | Vefur frá TACTICA


Opnunartími skrifstofu er mánudaga til föstudaga frá 08:00-13:00